Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lífleg og notaleg í senn

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Lífleg og notaleg í senn

19.12.2016 - 17:00

Höfundar

„Klárlega besta og heilllegasta latin platan sem Tómas hefur sent frá sér. Lífleg og notaleg í senn,“ er meðal þess sem Pétur Grétarsson hefur að segja um nýjustu plötu Tómasar R. Einarssonar og meðreiðarsveina- og meyja.

Pétur Grétarsson skrifar:

Skyggni ágætt úr þessu félagsheimili

Bóngótrommublæti Tómasar R. Einarssonar er á allra vitorði og latíntónlist hans löngu búin að finna sér fastan samastað í vitund þjóðarinnar. Jafnvel umfram alla fínu jazzmúsíkina sem hann hefur búið til og hefur líka fundið sér greiða leið inn í þessa sömu vitund. 

Tómas hefur í áraraðir slípað söngdansa sína og oft hitt vel með lagi og lagi í flutningi ólíkra söngvara. Fyrri latin plöturnar voru að mestu leiknar á hljóðfæri eingöngu, en rík tilfinning skáldsins fyrir texta hlaut eiginlega að leiða hann á þennan stað. Alveg burtséð frá ferðunum til Kúbu, þá er sönglagið svo ríkt í Tómasi að þessi plata hlaut að koma. 

Það má segja að þetta sé komið heim. Kristín Svava dóttir Tómasar leggur til texta auk hans sjálfs. Svo er líka einhvernveginn erfitt að sjá fyrir sér að Halldór Laxness komi ekkert við sögu á plötu frá Tómasi sem öll er sungin. Eitt ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur er þarna líka og svo semur Sigtryggur Baldursson tvo texta upp í Bogomil Font, sem leiðir sönginn ásamt Sigríði Thorlacius, sem fer á miklum kostum að vanda. Steinn Steinarr hittir óafvitandi beint í mark með tregaljóði sínu eftir vorinu við Breiðafjörð, sem Tómas svarar með bóleró-cha-i, því að þegar maður saknar einhvers er oft ekki gott að vita hvort maður á að hlæja eða gráta, dansa vangadans eða tjútta.

Tómas hefur lýst því hvernig hann sótti sér músíkalskan innblástur út fyrir Havana í tengslum við þessa plötu. Úr argaþrasi stórborgarinnar í sveitamennskuna og alþýðleikann í Santiago. Á árum áður hefði kannski verið hægt að tala um muninn á Breiðfirðingabúð og Dalabúð í þessu samhengi. Ég veit það ekki, en platan er gríðarlega vel heppnuð þó ég þori ekki að fullyrða um að hún sé besta plata Tómasar. En klárlega besta og heilllegasta latin platan sem Tómas hefur sent frá sér. Lífleg og notaleg í senn.

Tengdar fréttir

Tónlist

Tómas R. og félagar á Jazzhátíð Reykjavíkur