Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lífið kviknar á ný 900-9903

01.02.2014 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd:

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir - flytjandi og textahöfundur

Sigga Eyrún fæddist í Reykjavík 1976 og ólst að mestu upp í Breiðholtinu, en einnig í Óðinsvéum í Danmörku. Höfundur lagsins, Karl Olgeirsson, er kærasti Siggu Eyrúnar og á hún eina dóttur.

Sigga Eyrún er með grunnskólakennaramenntun frá Háskóla Íslands, en lærði einnig í við söngleikjadeild Guildford School of Acting, í Söngskólanum í Reykjavík og við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Hún starfar sem leikkona og söngkona og er þessa dagana að leika frú Korrý í söngleiknum um Mary Poppins. Hún er líka í dúettnum Viggó og Víólettu ásamt því að tala inn á teiknimyndir eins og Múmínálfana, Gurru Grís og fleiri. Sigga Eyrún hefur leikið í Stundinni okkar og vinnur núna að plötu og er fyrsta lagið af henni þegar komið inn á Vinsældalista Rásar 2. Söngferillinn byrjaði snemma og þegar hún söng í Karókíkeppni Seljaskóla árið 1992 var Páll Óskar kynnir kvöldsins. Hann kynnti sigurvegarann með því að syngja „I believe that Sigga is our future...“ og vinkonur Siggu Eyrúnar skríktu og grétu af gleði.

Sigga Eyrún tengir Lífið kviknar á ný við allt sitt líf, sem hún segir hafa verið dásamlegt ferðalag, en hún hafi svo sannarlega þurft að gefa sjálfri sér hvatningu þegar ekkert hefur virst ætla að ganga upp.

 

Karl Olgeir Olgeirsson

Karl Olgeir Olgeirsson – höfundur lags og texta

Karl Olgeirsson er 41 árs og fæddist í Lundi í Svíþjóð en flutti ungur til Reykjavíkur og ólst upp í Hlíðunum. Sigga Eyrún, sem syngur lagið hans í keppninni, er kærastan hans og þau búa í Reykjavík.

Karl á mikla reynslu að baki í tónlistarheiminum. Hann hefur verið tónlistar- og/eða hljómsveitarstjóri í fjölda ólíkra leikhúsverka eins og Rómeó og Júlíu, Djöflaeyjunni, Kalla á þakinu, Sporvagninum Girnd og Fame. Karl hefur stjórnað upptökum á yfir 30 plötum ásamt því að hafa útsett, samið fyrir og stjórnað Frostrósartónleikunum öll 12 árin. Hann hefur áður komið að Söngvakeppninni bæði beint og óbeint, var tónlistarstjóri Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2000, átti tvö lög í keppninni 2003 og stjórnaði upptökum á átta af þeim lögum sem tóku þátt í keppninni 2008. Karl hefur leikið með Milljónamæringunum frá árinu 2002, hann útsetti fyrir kór á Medúllu Bjarkar Guðmundsdóttir og á tónlist í ýmsum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þá hefur hann starfað við dagskrárgerð bæði í útvarpi og sjónvarpi og margt fleira.

Karl segir lagið Lífið kviknar á ný vera í stíl hvatningarsöngva 7. áratugarins, þar sem Diana Ross og þær systur voru að gefa vinkonunum ráð um að gefast ekki upp og þá verður allt gott á ný. Lagið hefur þróast langa leið frá því gamaldags kúrekalagi, leiknu af lúðrasveit með danstakti, sem það átti upprunalega að vera.

 

Lífið kviknar á ný

Þú segir mér að lífið hafi leikið þig grátt,
nú gangi ekkert hjá þér

Áður varstu þjáð við að lifa of hátt

og nú ertu aftur hér

Vældu ekki þó að snjói á þinn veg
og allt sé komið á kaf

Gerðu eins og ég, ekki vera svo treg
og drífðu þig aftur af stað

Oó - teldu upp á þrjá
Oó - hvað gerist þá?
Oó - þá muntu sjá
að lífið kviknar á ný

Oó - teldu upp á þrjá ...

Hér er lítil saga sem að læra má af
svo komist þú aftur af stað

Ekki missa móðinn þó þú siglir í kaf
Þú verður að muna það!

Oó - teldu upp á þrjá
Oó - hvað gerist þá?
Oó - þá muntu sjá
að lífið kviknar á ný

Oó - teldu upp á þrjá ...

Skaustu svoldið yfir markið, elskan?
Lífið getur verið kalt
Teldu aftur í þig kjarkinn, gæskan,
þú veist þú getur fengið allt

Hér er önnur saga sem að læra þú skalt
svo komist þú aftur af stað
Ekki missa móðinn og þá geturðu allt
þú verður að muna það!

Oó - teldu upp á þrjá
Oó - hvað gerist þá?
Oó - þá muntu sjá
að lífið kviknar á ný

Oó - teldu upp á þrjá ...