
Lífeyrissjóðir greiða fleirum ellilífeyri
Þetta kemur fram í frétt frá Hagstofu Íslands.
Hlutfall kvenna með ellilífeyri eingöngu frá Tryggingastofnun lækkaði úr rúmum 8% í tæp 4% á árunum tíu. Hjá körlum hefur hlutfallið lækkað úr rúmum 5% í tæp 3%. „Það dregur saman með kynjunum og út úr því má lesa ákveðna kynslóðabreytingu. Það er að segja að konum sem hafa verið á vinnumarkaði og öðlast þar lífeyrisréttindi fjölgar jafnt og þétt,“ segir Kristinn Karlsson, sérfræðingur á Hagstofunni.
Frá árinu 2007 til 2016 fjölgaði ellilífeyrisþegum um tæp 22% að teknu tilliti til mannfjölda og örorkulífeyrisþegum um tæp 15% miðað við mannfjölda 18 til 66 ára. Á sama tímabili fjölgaði þeim sem bjuggu á landinu um rúmlega 7%. Ef ekki er horft til mannfjöldaþróunar þá hefur ellilífeyrisþegum fjölgað um 31% og örorkulífeyrisþegum um 24%.
Upplýsingar Hagstofunnar taka til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris auk örorkustyrks í desembermánuði ár hvert frá árinu 2007 til 2016.