Lífeyrissjóðir eiga tæp 10% í United Silicon

05.05.2017 - 20:04
Bankar og lífeyrissjóðir hafa eignast ríflega tuttugu prósent í United Silicon, mest í formi hlutafjáraukningar. Sjötíu og fimm prósent eignarhaldsins er skráð í Hollandi. Nýir hluthafar hafa áhyggjur af stöðu verksmiðjunnar en vænta þess að lausn finnist. 

Þegar United Silicon tilkynnti fyrst um kísilverksmiðju sína í Helguvík var Magnús Garðarsson talsmaður verkefnisins og kynntur sem stærsti eigandi fyrirtækisins. Nú er Magnús hins vegar kominn úr stjórninni og er ekki lengur talsmaður fyrirtækisins. Eignarhaldið er jafnframt óljóst á stærstum hluta verksmiðjunnar.

Í fyrra átti félagið Kísill Ísland níutíu og níu komma níu prósent í félaginu. Eigendaslóðina má rekja til Hollands og er ekki vitað hver á það félag. Samkvæmt hluthafalista sem birtist á vef United Silicon fyrir skömmu, eftir að fréttastofa hóf að spyrjast fyrir um eignarhaldið, ræður Kísill Ísland nú sextíu og sjö komma fimm prósentum og tvö hollensk félög eiga beint átta prósent. Þetta eru því samtals þrír fjórðu af félaginu, sem ekki er vitað hver á.

Arionbanki, sem er stærsti lánveitandi United Silicon, á ellefu prósent, Frjálsi lífeyrissjóðurinn fimm komma sex prósent, Festa Lífeyrissjóður þrjú komma sjö prósent og eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna rúmlega hálft prósent. Meðal annarra eigenda er lögmannsstofan Veritas og Magnús Garðarsson, sem á eitt prósent í fyrirtækinu.

Lífeyrissjóðirnir eignuðustu sína hluti í United Silicon að mestu með því að taka þátt í hlutafjáraukningu. sem hefur reynst fyrirtækinu nauðsynleg, bæði vegna hærri byggingarkostnaðar en áætlað var og vandamála sem hafa komið upp eftir að verksmiðjan var sett í gang í haust. Arionbanki eignaðist hluta bréfanna á sama hátt, en hluta með sölutryggingu, sem er skuldbinding um að kaupa ákveðinn fjölda bréfa í fyrirtækinu.

Í skriflegu svari frá Arionbanka er áhyggjum lýst af stöðunni, enda flókin úrlausnarefni til staðar og mikilvægt að úr þeim leysist. Málefni verksmiðjunnar sé komin farveg og það sé fyrst og fremst stjórnar og stjórnenda United Silicon að leiða þetta mál til lykta. Í skriflegu svari frá Frjálsa lífeyrissjóðnum segir að sjóðurinn hafi áhyggjur af fregnum af erfiðleikum hjá verksmiðjunni. Það komi á óvart hve illa hafi gengið að koma starfseminni í eðlilegt horf en sjóðurinn vænti þess að tæknileg vandamál verði leyst á fullnægjandi hátt.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV