Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lífeyrissjóðir áttu að vera viðbót við kerfið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lífeyrisdeild SFR mótmælir því harðlega að greiðslur úr lífeyrissjóðum skerði lífeyri frá almannatryggingum. Í ályktun aðalfundar lífeyrisdeildarinnar segir að við stofnun lífeyrissjóða hafi verið gert ráð fyrir að lífeyrir úr þeim yrði til viðbótar lífeyri frá almannatryggingum og því eigi ekki að skerða þann lífeyri.

Afnema eigi allt tekjutengingarkerfi almannatryggingakerfisins og auka sveigjanleika í starfslokum þannig að þeir sem kjósa að vinna lengur geti gert það án þess að eftirlaun þeirra skerðist.

Þá er í ályktun aðalfundarins þess krafist að stjórnvöld standi vörð um heilbrigðiskerfið og að forgangsraðað verði í byggingu hjúkrunarheimila og útrýmingu biðlista. Það sé til skammar að biðlistar séu eftir plássi á hjúkrunarheimili hjá einni ríkustu þjóð heims.