Líf efst og Elín Oddný önnur í forvali VG

Líf Magneudóttir varð efst í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í komandi borgarstjórnarkosningum. Líf, sem hefur verið borgarfulltrúi flokksins síðan Sóley Tómasdóttir hætti í borgarstjórn haust 2016, gaf ein kost á sér í efsta sætið í forvalinu sem fór fram í dag. Annað sætið í forvalinu hreppti varaborgarfulltrúinn Elín Oddný Sigurðardóttir. Í þriðja sæti er Þorsteinn V. Einarsson.

Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, var á Hótel Borg í kvöld þegar niðurstaðan var tilkynnt og ræddi við Sjöfn Ingólfsdóttur, fulltrúa í kjörnefnd og Þorstein V. Einarsson, sem lenti í 3. sæti í forvalinu. Viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Valið var í fimm efstu sæti listans og er niðurstaðan leiðbeinandi. 493 greiddu atkvæði. Tvö atkvæði voru auð og tvö ógild. Atkvæði dreifðust með eftirfarandi hætti:

1. sæti: Líf Magneudóttir fékk 401 atkvæði. Næst var Elín Oddný Sigurðardóttir með 36 atkvæði.

2. sæti: Elín Oddný Sigurðardóttir, með 311 atkvæði í 1. til 2. sæti. Næstur var Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson með 99 atkvæði. Hann gaf kost á sér í 2. til 4. sætið.

3. sæti: Þorsteinn V. Einarsson, með 164 atkvæði í 1. til 3. sæti. Næstur var Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson með 127 atkvæði.

4. sæti: Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm, með 210 atkvæði í 1. til 4. sæti. Næstur var Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson með 163 atkvæði.

5. sæti: René Biasone, með 218 atkvæði í 1. til 5. sæti. Næstur var Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson. Þar á eftir komu Björn Teitsson, Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, Hermann Valsson, Ragnar Karl Jóhansson og Jakob S. Jónsson.

Kjörnefnd flokksins leggur endanlegan lista með 46 frambjóðendum fyrir félagsfund Vinstri grænna í Reykjavík. Vinstri græn mældust með 13,3% fylgi í Reykjavík samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið í byrjun febrúar. Samkvæmt því fengi flokkurinn þrjá borgarfulltrúa af 23.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi