Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Liðsmenn Sigur Rósar neita allir sök

03.04.2019 - 10:05
Mynd: Freyr Gígja / RÚV
LIðsmenn Sigur Rósar neituðu allir sök þegar ákæra í skattsvikamáli á hendur þeim var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Verjandi þeirra fékk frest til 20.maí til að skila greinargerð í málunum fjórum. Fjórir liðsmenn sveitarinnar, ásamt endurskoðanda hennar, eru ákærðir fyrir skattsvik upp á samtals 150 milljónir. Eignir liðsmanna sveitarinnar voru kyrrsettar við rannsókn málsins.

„Ég er saklaus“, sagði Orri Páll Dýrason, sem var fyrstur liðsmanna Sigur Rósar til að koma fyrir dómara. Verjandi þeirra fékk frest til 20.maí til að skila greinargerð í málunum fjórum.„Þið þurfið ekkert að mæta þá,“ sagði dómari við liðsmenn Sigur Rósar sem sátu allir saman.  „Þurfið bara að mæta við aðalmeðferðina.“

Georg Holm, bassaleikari, var næstur til að setjast við hlið Bjarnfreðs Ólafssonar, sem er verjandi liðsmanna Sigur Rósar. „Ég neita sök,“  sagði Georg. Kjartan Sveinsson var næstur til að setjast en hann hætti í hljómsveitinni fyrir nærri sex árum. „Neita sök,“ sagði Kjartan.

Jón Þór Birgisson, söngvari Sigur Rósar, var síðastur en hann er ákærður, ásamt endurskoðanda sveitarinnar. Endurskoðandinn gat ekki mætt þar sem hann er staddur erlendis og dómarinn spurði saksóknara hvort endurskoðandinn hefði ekki neitað sök hjá lögreglu. „Jú,“ sagði saksóknari en kvaðst ekki hafa upplýsingar um hvaða afstöðu hann ætlaði að taka fyrir dómi.

„Manni myndi bregða í kút ef einhver játaði,“ sagði dómarinn. Það varð engu að síður úr að beðið var eftir verjanda endurskoðandans til að klára síðustu ákæruna.

Sátu allir saman á fremsta bekk

Þrátt fyrir að rúmlega korters bið væri þar til síðasta málið væri tekið fyrir sátu liðsmenn Sigur Rósar saman á fremsta bekk og biðu með Jónsa. Málið virðist því ekki hafa haft nein áhrif á samstarf sveitarinnar sem hefur þurft að ganga í gegnum ýmsilegt að undanförnu. Staðið í deilu við einn nánasta samstarfsmann sinn vegna miðasölu á tónleika í Hörpu og svo hætti Orri Páll í sveitinni eftir ásakanir um kynferðisbrot sem hann segist saklaus af.

Bjarnfreður, verjandi tónlistarmannanna, sagðist ekki eiga von á því að þess yrði krafist að málinu yrði vísað frá. 

Tvær ákærur á hendur söngvara sveitarinnar

Jón Þór Birgisson, söngvari sveitarinnar, var síðastur til að fá sér sæti og taka afstöðu til ákærunnar. Hann er ákærður ásamt endurskoðanda sveitarinnar. Í máli dómarans kom fram að ný ákæra hefði verið gefin út á hendur Jóni Þór og félagi í hans eigu og voru þau tvö mál sameinuð. "Ég er saklaus af báðum ákærum," sagði Jón

Allir liðsmenn Sigur Rósar nema Kjartan Sveinsson eru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014.  Kjartan er sagður hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum árin 2012 og 2014.

Þá er endurskoðandi hljómsveitarinnar ákærður ásamt Jóni Þór Birgissyni, söngvara Sigur Rósar, fyrir að hafa ekki staðið skil á skattframtölum söngvarans gjaldárin 2014 og 2015.