Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Liðsauki sendur til Papúa

21.08.2019 - 08:57
Erlent · Asía · Indónesía · Papúa
epa07780871 Thousands of people march on the street during a protest in Jayapura, Papua Province, Indonesia, 19 August 2019. According to media reports, thousands of people attended a protest in Jayapura as others set on fire the local parliament building and cars in Manokwari during the protest against the detention of Papuan students for damaging a national flag pole outside of a dormitory for Papuan students in Surabaya  EPA-EFE/FRANS
Þúsundir tóku þátt í mótmælum í Jayapura í Papúa í fyrradag. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Indónesíu hafa sent liðsauka úr her og lögreglu til að kveða niður mótmæli og óeirðir í Papúa-héraði austast í landinu. Fjölmenn mótmæli hafa verið í borgum og bæjum í Papúa undanfarna viku og kveikt hefur verið í opinberum byggingum.

Indónesar lögðu undir sig Papúa þegar Hollendingar hurfu þaðan á sjöunda áratug síðustu aldar, en það hafði þá verið hluti Hollensku Nýju-Gíneu. Hófst þá vopnuð barátta fyrir sjálfstæði, sem barin hefur verið niður með hörku, en stöðugt andóf hefur verið á Papúa gegn stjórnvöldum í Jakarta.

Þúsundir hafa orðið að flýja heimili sín í átökum undanfarna áratugi og indónesískar öryggissveitir hafa verið sakaðar um gróf mannréttindabrot gegn almennum borgurum. Íbúar segjast ekki njóta tekna af þeim auðlindum sem nýttar eru á Papúa.

Ólga hefur farið vaxandi að undanförnu og upp úr sauð í síðustu viku. Þúsundir hafa farið um götur og krafist umbóta og sjálfstæðis. Mótmælin hafa snúist upp í óeirðir og kveikt hefur verið í ríkisfyrirtækjum og stjórnarbyggingum. Þá var kveikt í fangelsi í bænum Sorong og sluppu þaðan meira en 250 fangar.

Í morgun var tilkynnt að 1.200 her- og lögreglumenn yrðu sendir til Papúa til að koma þar á lögum og reglu.
 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV