Sendiherra Íslands í Rússlandi, sagði í fréttum RÚV á laugardag að þátttaka Íslands á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu skapi einstakt tækifæri til að koma íslenskum hagsmunum á framfæri í Rússlandi. Þar sé mikill áhugi á Íslandi sem beri að nýta vel. Helstu tækifærin séu við endurnýjun fiskiskipa og fiskvinnslu í Rússlandi.
Geta ekki flutt neinar afurðir til Rússlands
Íslenskir fisk- og kjötútflytjendur hafa glímt við viðskiptabann á íslenskar vörur í Rússlandi frá 2015, sem hefur valdið þeim miklu tjóni. „Meðan að þessar viðskiptaþvinganir eru ennþá fyrir hendi þá er í rauninni ekkert sem getur breytt stöðunni fyrir okkur. Og við getum ekki með neinum hætti flutt okkar afurðir til Rússlands,“ segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Pólitískar lausnir opni aftur rússneska markaðinn
Þarna sé um pólitíska ákvörðun rússneskra yfirvalda að ræða og athyglin í kringum HM í knattspyrnu dugi ekki til að leysa úr því. „Okkar opnun inn á rússneska markaðinn felst náttúrulega bara í pólitískum lausnum. Og ég vona bara að á einhverjum tímapunkti þá muni opnast fyrir rússneska markaðinn aftur. Þannig að ég vonast bara til að á hinu pólitíska sviði nái menn niðurstöðu og einhverri lausn í þessu máli,“ segir Jens Garðar.