Leynigögn komin til skattrannsóknarstjóra

14.03.2015 - 07:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skattrannsóknarstjóri hefur fengið afhent gögn frá frönskum skattayfirvöldum en talið er þau sýni skattaundanskot manna sem tengjast Íslandi. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að verið sé að fara yfir gögnin en vill ekki tjá sig frekar. Skjölin eru frá útibúi HSBC-bankans í Sviss en fyrrverandi starfsmaður hans, Hervé Falciani, lak þeim 2007. Bryndís segir að samningaviðræður um kaup á fleiri gögnum, um nokkur hundruð Íslendinga sem tengjast skattaskjólum, standi enn yfir. 

Bryndís sagði í fréttum RÚV fyrir rúmum mánuði að meta þurfi fjölmörg álitaefni áður en ákveðið verði hvort kaupa eigi þau skattagögn sem í boði eru. Komi í ljós að ekki séu forsendur til að ganga til þeirra viðskipta, verði ekki af þeim.

Í refsilögum er ákvæði, sem túlka má á þann veg að starfsmenn embættis skattrannsóknarstjóra gætu skapað sér refsiábyrgð með því að kaupa eða hafa milligöngu um kaup á gögnum, sem fengin væru með auðgunarglæp, eins og þar segir. Aðspurð hvort til greina komi að breyta lögum til að liðka fyrir viðskiptunum sagði Bryndís að það sé annarra að ákveða slíkt, en verið sé að meta alla þætti málsins.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi