Leynd yfir Stjörnustríðstökum hér á landi

Star Wars: Rogue One

L to R: Actors Riz Ahmed, Diego Luna, Felicity Jones, Jiang Wen and Donnie Yen

Photo Credit: Jonathan Olley

©Lucasfilm 2016
 Mynd: stillur - RÚV

Leynd yfir Stjörnustríðstökum hér á landi

20.09.2015 - 12:03

Höfundar

Tökulið bandarísku kvikmyndarinnar Star Wars: Rogue One hefur að undanförnu verið að störfum við Hjörleifshöfða og Hafursey samkvæmt heimildum fréttastofu. Truenorth er tökuliðinu innan handar og hefur stofnað sérstakt framleiðslufyrirtæki til að halda utan um verkefnið - Space Bear.

Þórir N. Kjartansson, landeigandi í Hjörleifshöfðalandi, segir þetta ekki fyrstu kvikmyndatökurnar á þessum slóðum - til að mynda hafi biblíumynd Darren Aronofsky, Nói, verið tekin upp á þessu svæði. Truenorth kom einnig að þeim tökum. 

Leiðum lokað

Þórir sagðist þó ekkert vita hvort þetta væri Stjörnustríðsmynd eður ei - bara að tökur hefðu farið fram víða  og að undirbúningur hefði staðið lengi yfir. Hann segir mikla leynd hvíla yfir öllu - leiðum hafi verið lokað til að koma í veg fyrir að óprúttnir aðilar reyni að ná einhverjum myndum af tökustöðum.

Forsvarsmenn Truenorth vildu ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því.

Tvö félög stofnuð með tengsl við Stjörnstríð

Fram kom í Lögbirtingablaðinu um miðjan þennan mánuð að félagið hefði stofnað framleiðslufyrirtækið Space Bear. Fyrir nákvæmlega ári var fyrirtæki með sama nafni stofnað á Bretlandi til að halda utan um kvikmynd sem tengist Star Wars - vörumerkinu.

Í ágúst stofnaði Truenorth annað félag sem nefnist Lunak Heavy Industries - fyrirtæki með sama nafni var einnig stofnað í Bretlandi til að halda utan um verkefni sem tengjast Stjörnustríðs-framleiðslunni.

Mikkelsen ræddi um Ísland

Danski leikarinn Mads Mikkelsen, sem leikur eitt aðalhlutverkanna í myndinni, ljóstraði því enn fremur upp í viðtali við Ekstra Bladet að tökur á myndinni færu að einhverju leyti fram hér á landi.  Meðal annarra leikara í myndinni má nefna Felicity Jones, Diego Luna og Forest Whitaker. 

Star Wars: Rogue One er ekki hluti af Stjörnustríðsbálkinum heldur svokallað „spin off“. Myndin á að gerast fyrir fyrstu Stjörnustríðsmyndina Star Wars: A New Hope og segir frá hópi uppreisnarliða sem reynir að stela teikningum af Dauðastjörnunni alræmdu. 

Gert ráð fyrir 1,1 milljarði í endurgreiðslur á næsta ári

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs gerir atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið ráð fyrir því að verja 1,1 milljarði í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hér á landi. Meðal annars er lagt til að 300 milljóna króna framlag, sem veitt var tímabundið, verði framlengt um eitt ár. „Það er mat ráðuneytisins og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands að útgefin vilyrði og væntanleg verkefni gefi tilefni til að ætla að ekki muni draga úr endurgreiðslum á árinu 2016.“

Í frumvarpinu segir enn fremur að endurgreiðslur fari hækkandi - árið 2011 hafi þær numið 300 milljónum en áætlað sé að þær verði að lágmarki 1,1 milljarður á þessu ári.

Chewbacca kom til landsins

Tökulið Star Wars: The Force Awakens kom til Íslands síðasta sumar. Þá vakti það talsverða athygli þegar þyrla frá Norðurflugi með tökuliðinu lenti í hremmingum á Eyjafjallajökli.

Breska blaðið The Sun greindi jafnframt frá því að tökulið raunveruleikaþáttarins Geordie Shore hefði hitt tökulið Star Wars.

RÚV greindi síðan frá því í maí á þessu ári að Chewbacca, loðni og tryggi vinur Han Solo, hefði verið í tökum á Íslandi vegna fyrstu myndarinnar. Hún verður frumsýnd um jólin.