Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Leynd um ástæðu tugmilljarða samkomulags

11.10.2017 - 15:27
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Leynd hvílir yfir ástæðu þess að Deutsche Bank greiddi Kaupþingi ehf. og þrotabúum tveggja eignarhaldsfélaga samtals 425 milljónir evra, jafnvirði 51 milljarðs króna, í desember í fyrra, vegna viðskipta sem tengjast svokölluðu CLN-máli Kaupþingsmanna. Kaupþingsmenn fóru fram á rannsókn á samkomulaginu eftir umfjöllun fréttastofu Ríkisútvarpsins í mars. Tekist var á um þetta í Hæstarétti í dag. Þar var ýjað að markaðsmisnotkun og tvöfeldni Deutsche Bank.

Áður hafði verið fjallað um samkomulag Deutsche Bank við Kaupþing og eignarhaldsfélögin tvö, Chesterfield United og Partridge Management Group, en nákvæm upphæð, 425 milljónir evra, hafði ekki komið fram opinberlega fyrr en í Hæstarétti í morgun. Annað samkomulagið er við Kaupþing og hljóðar upp á 212,5 milljónir evra, hitt er við félögin tvö, einnig upp á 212,5 milljónir evra. Allt féð, að undanskildum 10% af síðarnefnda samkomulaginu, rann til Kaupþings.

Deutsche Bank, skilti.
 Mynd: blu-news.org - Flickr

Heyrðu af samkomulaginu í fréttum RÚV

Sigrún Davíðsdóttir, fréttaritari RÚV í London, greindi þó frá því í Speglinum í mars að samkomulagið hefði verið gert og að upphæðin væri yfir 400 milljónum. Með samkomulaginu væri hætt við dómsmál sem Kaupþing annars vegar og félögin tvö hins vegar hefðu rekið gegn Deutsche Bank til að fá peningana greidda. Í Speglinum kom fram að Deutsche Bank væri ófús til að veita upplýsingar um samkomulagið, hefði staðfest að samkomulagið hefði verið gert en engar upplýsingar viljað veita umfram það.

Umfjöllun RÚV hreyfði við fyrrverandi yfirmönnum Kaupþings, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni. Þeir höfðu rúmum mánuði áður verið sýknaðir af ákæru sérstaks saksóknara í CLN-málinu svokallaða, sem einnig hefur verið nefnt Chesterfield-málið eftir öðru af áðurnefndu félögunum tveimur, og í Hæstarétti í morgun kröfðust þeir rannsóknar á samkomulaginu. Fyrst er hins vegar rétt að fara yfir um hvað CLN-málið snýst.

Um þetta snýst CLN-málið

Í CLN-málinu voru Hreiðar og Sigurður ákærðir fyrir að lána fé út úr Kaupþingi í flókin viðskipti með svonefnd lánshæfistengd skuldabréf (Credit Linked Notes, CLN). Þau viðskipti kallaði Björn Þorvaldsson saksóknari „illskiljanleg“ fyrir dómi í morgun. Þau gengu í sem stystu máli út á að Deutsche Bank gaf út þessi lánshæfistengdu skuldabréf – bréf sem í þessu tilviki voru beintengd skuldatryggingarálagi Kaupþings – og Kaupþing lánaði félögunum tveimur, Chesterfield og Partridge, fyrir kaupunum á bréfunum.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Allt var þetta gert í því skyni að lækka skuldatryggingarálagið á Kaupþing og gera bankanum þannig auðveldara að fjármagna sig í millibankaviðskiptum. Fléttan var teiknuð upp hjá Deutsche Bank, sem vildi þó ekki að Kaupþing keypti lánshæfistengdu skuldabréfin beint af Deutsche bank því að þá væri tilgangurinn of augljós. Það væri betra að gera það í gegnum félögin tvö, og raunar enn fleiri móðurfélög en það eru snúningar sem of langt mál er að rekja.

Kaupþing lánaði samtals 72 milljarða

Deutsche Bank lánaði félögunum líka peninga í þessi viðskipti, um það bil jafnmikið fé og Kaupþing gerði, en þau lán báru þann skilmála að Deutsche Bank gæti gert veðkall ef skuldatryggingarálagið hækkaði í stað þess að lækka. Það var einmitt það sem gerðist; þarna var komið fram á haust 2008, hrunið nálgaðist og skuldatryggingarálagið á Kaupþing hækkaði þrátt fyrir þessa tilraun. Deutsche Bank gerði veðkall hjá félögunum og Kaupþing ákvað þá að lána þeim fyrir því líka.

Samtals lánaði Kaupþing því félögunum tveimur 510 milljónir evra, sem á þeim tíma var jafnvirði um 72 milljarða króna. Hluti af þessu fé var fenginn með neyðarláni úr Seðlabankanum rétt fyrir hrun. Með þessu telur saksóknari að Hreiðar og Sigurður hafi gerst sekir um umboðssvik, enda hafi engar tryggingar verið fyrir lánunum og upphæðin í heild sinni hafi tapast. Bankinn hafi orðið fyrir gríðarlegu og fáheyrðu tjóni, eins og segir í ákærunni. Magnús er ákærður fyrir hlutdeild í brotum hinna tveggja.

Stórtíðindi, segir verjandi Hreiðars

Héraðsdómur sýknaði þremenningana hins vegar í janúar. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar, en áður en málið kom til kasta réttarins birtist umfjöllun RÚV um tugmilljarða samkomulag Deutsche Bank.

Mynd með færslu
Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más. Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV

Í Hæstarétti í morgun sagði Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, að í kjölfar fréttaflutnings RÚV hafi Kaupþingsmenn ákveðið að beina því til saksóknara að rannsaka tildrög samkomulagsins frá því í desember. Í frétt RÚV hafi verið gefið til kynna að Deutsche Bank hafi lagt á ráðin um viðskiptin frá upphafi, hafi jafnvel misnotað aðstöðu sína og verið „á vinningsenda veðmálsins“ um það hvernig Kaupþingi vegnaði haustið 2008.

Þá benti Hörður á að það væru stórtíðindi í málinu að Kaupþing hefði ekki orðið fyrir eins miklu tjóni og fullyrt væri í ákærunni. Þar segði að tjónið hefði numið 510 milljónum evra. Ekkert hefði fengist upp í lánin, sem væru að fullu glötuð. Nú væri ljóst að það væri ekki rétt; þvert á móti væri Kaupþing búið að fá yfir 400 milljónir evra af lánunum greiddar frá Deutsche Bank.

Er samkomulagið lykilatriði eða ekki?

Um þetta var tekist á fyrir Hæstarétti í morgun: Skiptir samkomulag Deutsche Bank frá því í desember máli fyrir rekstur CLN-málsins gegn Kaupþingsmönnum? Og ber saksóknara skylda til að rannsaka samkomulagið og ástæðu þess betur áður en lengra er haldið?

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Verjendur þremenninganna voru eindregið þeirrar skoðunar að þetta væri bráðnauðsynlegt. Hörður Felix benti á að upphæðin sem hefði fengist út úr samkomulaginu – eða samkomulögunum tveimur – næmi tæpum 85% af heildarlánsfjárhæðinni, þótt reyndar hafi bara 95% milljónanna 425 runnið til Kaupþings.

Hörður sagði að þetta væri svo hátt hlutfall að Deutsche Bank og lögmenn hans, eins og lögmenn mótaðilanna, hljóti að hafa metið það sem svo að meiri líkur en minni væru á því að niðurstaða dómsmálsins yrði á þá leið að bankinn þyrfti að greiða upphæðina að fullu. Þess vegna væri farsælla að ljúka málunum tveimur með samkomulagi en að standa í áralöngum málaferlum.

Hörður sagði að aldrei hefði verið gengið til þessa samkomulags nema rík ástæða hefði þótt til og þetta þurfi að rannsaka. Meðal annars á hvaða grundvelli Kaupþing krafði Deutsche Bank um þessa greiðslu. Viðurkenning Deutsche Bank á greiðsluskyldunni bendi til sakar bankans eða þess að hann hafi leikið tveimur skjöldum í viðskiptunum á sínum tíma.

Sakaði saksóknara um vanrækslu

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, tók undir þetta. Hann sagði raunar að það ætti að vísa málinu á hendur þremenningunum alfarið frá dómi vegna þeirrar vanrækslu saksóknara að hafa ekki rannsakað þátt Deutsche Bank almennilega.

Gestur sagði að samkomulagið benti til þess að viðskiptin hafi alla tíð fyrst og fremst verið á milli Kaupþings og Deutsche Bank. Félögin sem fengu lánin hafi einungis verið milliliðir og sáralitlu máli skipt í heildarsamhenginu. Það að Deutsche Bank hafi samþykkt að greiða á bilinu 50-60 milljarða sé „meira en lítil vísbending“ um þetta. Það hafi því ekki skapað neina hættu á fjártjóni að lána þessum félögum peningana.

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, undirbýr ræðu sína í réttarhöldum vegna allsherjarmarkaðsmisnotkunar í Kaupþingi.
Gestur Jónson. Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV

Krafan í raun að fullu greidd

Þá sagði Gestur líka að af þeim litlu upplýsingum sem fyrir liggja um samkomulagið megi álykta „með nokkurri vissu“ að Deutsche Bank hafi í raun viðurkennt að bankanum bæri að bæta Kaupþingi alla fjárhæðina. Ef 85% séu boðin upp í kröfu í aðstæðum sem þessum þá samþykki kröfuhafi það undantekningalaust til að losna við kostnað af málaferlum.

Það sem út af standi, rúmar 100 milljónir evra, 12-13 milljarðar króna, sé í raun afleiðing af matskenndri ákvörðun deiluaðila fyrir dómi og það sé ekki hægt að líta svo á að þremenningarnir beri ábyrgð á því tjóni, ef tjón skyldi kalla.

Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, benti á það, eins og Hörður og Gestur á undan henni, að sú fullyrðing í ákærunni að milljónirnar 510 væru með öllu tapaðar væri röng. Það hefði nú komið í ljós. Þess vegna beri að vísa málinu frá, enda sé ákæran ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Þá sagði Kristín einsýnt að saksóknari hefði aldrei hugað að því hvort Deutsche Bank hefði mögulega frá upphafi borið skylda til að greiða féð aftur. Því hafi enginn gaumur verið gefinn.

Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, við réttarhöld í markaðsmisnotkunarmáli gegn Kaupþingsmönnum.
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV

Lék kannski tveimur skjöldum, en hvað með það?

Björn Þorvaldsson saksóknari sagði hins vegar í málflutningsræðu sinni um þetta efni að samkomulagið skipti í raun engu máli. Aðkoma Deutsche Bank hefði raunar verið rannsökuð ágætlega en eftir stæði að þremenningarnir hefðu átt þátt í að veita eignalausum félögum himinhá ótryggð lán til að fjármagna viðskipti á áhættusömum markaði með lánshæfistengd skuldabréf. Þeir hafi valdið Kaupþingi mikilli fjártjónshættu með því, óháð því hvert tjónið hafi á endanum orðið. Það að drjúgur hluti hafi endurheimst níu árum síðar geti kannski haft áhrif á refsinguna, en ekki brotið sem slíkt.

Björn sagði að ekkert lægi fyrir um það hvers vegna Deutsche Bank hefði gert þetta samkomulag og að erfitt gæti verið að komast að því. Hann sagði að margir möguleikar væru fyrir hendi og að hægt væri að láta sér detta ýmislegt í hug þeim efnum. Eitt af því væri að bankinn hafi séð fram á að þurfa að afhenda skiptastjórum alls kyns gögn í tengslum við dómsmálin og hafi viljað losnað við það til að vernda orðspor sitt. „Það er ekki ólíklegt að alþjóðlegur banki vilja losna við að vera sakaður um markaðsmisnotkun,“ sagði Björn.

Ekkert af þessu skipti hins vegar máli. Ekki sé ákært fyrir hin flóknu viðskipti með lánshæfistengdu skuldabréfin, heldur lán Kaupþings til Chesterfield og Partridge. Brot þremenninganna hafi einfaldlega verið fullframið þegar lánin voru veitt félögunum. „Lék Deutsche Bank tveimur skjöldum? Kannski, en það skiptir ekki máli hérna heldur,“ sagði Björn. „Hvort ákærðu voru beittir blekkingum breytir ekki neinu.“

Mynd með færslu
Björn Þorvaldsson saksóknari. Mynd: RÚV

„Handarbakavinnubrögð“ í gölluðum og torskildum dómi

Einnig var tekist á um það fyrir Hæstarétti í dag hvort ógilda bæri sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Björn sagðist telja dóminn svo gallaðan að óhjákvæmilegt væri að ógilda hann og rétta upp á nýtt í málinu í héraði upp á nýtt. Hann sagði að dómurinn væri torskilinn, byggði ekki á gögnum málsins, framburðir væru raktir ranglega, í dómnum væru undarlegar rangfærslur og hann einkenndist af handarbakavinnubrögðum og misskilningi á grundvallaratriðum málsins.

Þessu mótmæltu verjendurnir hver um sig og töldu að sýknudómurinn ætti að standa en vörðu þó allir langmestum hluta ræðutíma síns í að fjalla um mikilvægi þess að rannsaka í þaula ástæðu þess að Deutsche Bank ákvað að semja um að greiða Kaupþingi jafnvirði rúmlega 50 milljarða króna.