Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Léttir í Kauphöllinni við fréttir af WOW

26.03.2019 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Verð hlutabréfa flestra félaga í Kauphöll Íslands hækkaði í dag þegar ljóst var að búið væri að ná samkomulagi við kröfuhafa í WOW air. Eina félagið sem lækkaði í verði var Icelandair.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,25 prósent í dag. Alls var verslað fyrir ríflega fimm milljarða í dag. Mest hækkun var í Festi, sem á N1, Krónuna og Elko. Festi hækkaði um 4,13 prósent í viðskiptum með 273 milljónir króna. Mest var verslað með bréf í Marel eða 2,2 milljarða. Verð í Marel hækkaði um 1,5 prósent í dag.

Hlutabréfaverð í Icelandair lækkaði um 9,89 prósent í dag. Tiltölulega lítil viðskipti voru með bréf félagsins, eða einungis 81 milljón. Verð í Icelandair hækkaði nokkuð í lok síðustu viku þegar ljóst var að ekkert yrði af fjárfestingu Indigo Partners í WOW air. Icelandair Group steig inn og kannaði hvort flötur væri á fjárfestingu félagsins í WOW en hætti svo við á laugardag.

Verð bréfa í Icelandair var 8,11 krónur við lokun markaða í dag. Lægst hefur hlutabréfaverðið farið í 7,21 krónu. Um áramót kostaði hluturinn í Icelandair 9,46 krónur.