Lettar sækja um evru-aðild

19.02.2013 - 05:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Lettar ætla bráðlega að sækja um aðild að evróska myntsamstarfinu og vonast til að geta tekið upp evru fyrir næstu áramót.

Valdis Dombrovskis, forsætisráðherra segir í viðtali við Lundúnablaðið Guardian að formleg umsókn um aðild að myntsamstarfinu verði lögð inn í byrjun næsta mánaðar. Markmiðið sé að að Lettland verði orðið átjánda evrulandið í lok ársins. Hann segir að lettneskir embættismenn eigi í viðræðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Evrópska seðlabankann. Málið sé nú tæknilegs eðlis.

Dombrovski segir að öllum undirbúningi ætti að vera lokið í júlí. Hann segir að Lettar líti á umsóknina sem eins konar tryggingu. Hvað svo sem gerist með evruna þá gerist það sama í Lettlandi því 80% allra lána, til heimila og fyrirtækja, séu í evrum.

Eistlendingar tóku upp evru í hitteðfyrra. Guardian hefur eftir Butkevicius, forsætisráðherra Litháens, að Litháar stefni að því að sækja um aðild að myntbandalaginu á næsta ári og taka upp evru árið eftir. Gengið verði frá aðgerðaáætlun þaraðlútandi í þessari viku.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi