Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lét kanna tölvuinnbrot rétt fyrir Wintris-þátt

12.09.2016 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lét rekstrarfélag stjórnarráðsins kanna hvort brotist hefði verið inn í tölvu hans tveimur dögum áður en Kastljósþáttur var sýndur þar sem uppljóstrað var um eign hans í aflandsfélaginu Wintris. Þetta kemur fram í svari rekstrarfélagsins við fyrirspurn Kjarnans.

Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni á miðstjórnarfundi á laugardag að hann vissi að brotist hefði verið inn í tölvuna hans. Hann hefði látið fara yfir hana í stjórnarráðinu og merki hafi fundist um innbrot í tölvuna. 

Í frétt Kjarnans, þar sem greint er frá svarinu, kemur fram að Rekstrarfélagi Stjórnarráðsins hafi borist beiðni frá þáverandi forsætisráðherra, þ.e. Sigmundi Davíð, 1. apríl síðastliðinn, um að skoða tölvu ráðherra vegna rökstudds gruns hans um mögulegt innbrot. Við ítarlega leit hafi engin staðfest ummerki fundist um að innbrot hafi átt sér stað. 

Rétt er að rifja upp að Kastljósþátturinn með umtöluðu viðtali við Sigmund Davíð, þar sem greint var frá eign hans í aflandsfélaginu Wintris, var sýndur 3. apríl. Beiðni Sigmundar um athugun á tölvu hans barst því rekstrarfélaginu aðeins tveimur dögum áður en sá þáttur var sýndur.

Þá greinir Vísir.is frá því að Ríkislögreglustjóra hafi ekki borist tilkynning vegna gruns um að brotist hafi verið inn í tölvu fyrrverandi forsætisráðherra. Það svar fékk Vísir frá greinindardeild ríkislögreglustjóra, en slíkt brot myndi heyra undir þá deild. 

Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs segir í samtali við Nútímann að rekstrarfélagið hafi skoðað tölvu forsætisráðherra á síðasta ári. Hann muni ekki nákvæmlega hvenær ársins þar sem hann var ekki inni í hlutunum þá. Fundist hafi „græjur“ til upplýsingaöflunar og í kjölfarið hafi Sigmundi verið ráðlagt að hætta að nota tölvuna. Málið hafi ekki verið kært til lögreglu - aðeins unnið innan stjórnarráðsins. 

Fréttastofa sendi í dag Jóhannesi fyrirspurn um meint tölvuinnbrot Sigmundar Davíðs. Hann hefur ekki svarað henni.

 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV