Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Lestrarfélag kvenna Reykjavíkur

Mynd: Landsbókasafn / Landsbókasafn

Lestrarfélag kvenna Reykjavíkur

23.06.2015 - 00:25

Höfundar

Ári eftir að Kvenréttindafélag íslands var stofnað að heimlili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur hvatti hún til til stofnunar lestofu innan félagsins. Nauðsynlegt væri að efla lestur kvenna og aðgengi þeirra að bókum. í þættinum segir Brynhildur Heiðar - og Ómarsdóttir frá þessu félagi.

Lestrarfélag kvenna Reykjavíkur var starfrækt í allt til ársins 1961 en líklega hefur mikilvægi þess og virkni verið mest framan af 20. öldinni.

Laufey Vilhjálmsdóttir kennari tók við bókasafninu fljótlega eftir storfnun þess og hlúði að því allt til dauðadags. Lestrarfélagið safnaði bókum frá félagsmönnum, og átti til að mynda stórt safn af bókum á Norðurlandamálum, á ensku, og stórt safn af bókum fyrir börn.

Árið 1920 var stofnuð nefnd um málfar innan lestrarfélagsins og einbeitti nefndin sér að því að skapa ný íslensk orð sem tengdust heimilinu og menningu kvenna. Þar má t.d. nefna heimilisfang (adressa), barnfóstra (barnapía), veggfóður (betrek), blómvöndur (buket), fjölskylda (familía), smjörlíki (margarín), fataefni (fatatau), tíska (móður), skóhlífar (galossíur), búr (spískamers), eldhús (kokkhús), herbergi (verelsi), skrifstofa (kontór), nafnspjald (vísitkort)og tappatogari (korktrekkjari).

Á árunum 1912-1931 gaf félagið út handskrifað Mánaðarrit, en þar birtust ljóð og kvæði, greinar og sögur eftir konur sem síðar meir áttu eftir að hasla sér völl á ritvellinum, konur eins og Theodóra Thoroddsen, Herdís og Ólína Andrésdætur, Ingibjörg Benediktsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Ingunn Jónsdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir. Mánaðarritið birtist aldrei á prenti, en efnið sem þar birtist var handskrifað í sérstaka bók og lesið upp á fundum og skemmtunum félagsins.

Nú er unnið að því að gera Mánaðarritin aðgengileg á netinu.