Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lést eftir neyslu á listeríusmituðum laxi

23.04.2019 - 21:45
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd:
Íslensk kona á fimmtugsaldri lést af völdum listeríusýkingar í janúar en konan var með undirliggjandi ónæmisbælingu. Konan hafði borðað reyktan og grafinn lax um jólaleytið. Rannsóknir leiddu í ljós listeríu bakteríu í laxinum. Framleiðslu á laxinum var í kjölfarið hætt og matvæli framleiðanda innkölluð.

Þetta kemur fram í Farsóttarfréttum Landlæknis.

Í febrúar var greint frá því að Ópal Sjávarfang hefði stöðvað alla framleiðslu og dreifingu á vörum sínum eftir að listeríumengun fannst í vörum frá fyrirtækinu. Frekari rannsóknir hafi gefið tilefni til að ætla að ekki hafi tekist að uppræta hana. Matvælastofnun taldi jafnframt að fleiri afurðir kynnu að vera mengaðar af bakteríunni og ákveðið var því að innkalla allar reyktar afurðor úr verslunum. 

Fundu bakteríusmit í leifum af laxi

Á vef landlæknis segir að konan hafi veikst í byrjun janúar. Hálfum mánuði síðar lést hún af völdum listeríusýkingar. Leifar af laxi í frysti á heimili konunnar hafi verið rannsakaðar og tekist hafi að rækta bakteríuna úr þeim. Þá hafi ræktanir úr verksmiðju og vörum framleiðanda laxins leitt í ljós sömu bakteríu. Vörur framleiðandans höfðu verið fluttar til Frakklands en dreifingaraðilum þar var gert viðvart. Ekki hafa borist fleiri tilkynningar um listeríusýkingar vegna neyslu á íslenskum vörum innan Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins. 

Árið 2017 greindust 2.502 tilfelli af listeríusýkingum innan ESB og EES með fjórtán prósent dánartíðni. Sama ár greindust sjö tilfelli af sjúkdómnum á Íslandi. Fjórir af sjö létust en þrír þeirra voru eldri einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma. Eitt var nýfætt barn. Sýkingarnar voru taldar af innlendum toga í sex af þessum tilfellum. 

Veldur ekki alvarlegum einkennum hjá heilbrigðum 

Listeria monocytogenes getur orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi.

Í flestum heilbrigðum einstaklingum veldur neysla á listeríumenguðum matvælum ekki sjúkdómi. Áhættuhópar eru barnshafandi konur, ófædd og nýfædd börn og einstaklingar með skert ónæmiskerfi.