Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lesandi foreldrar eiga lesandi börn

Mynd: pixabay / Pixabay

Lesandi foreldrar eiga lesandi börn

25.09.2017 - 15:47

Höfundar

Er barnabókin svarið við vanda íslenskunnar, minnkandi lestraráhuga þjóðarinnar og bóksölu? Meðlimir SÍUNG eru vissir um það.

Meðlimir SÍUNG, Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda, heimsóttu Víðsjá á vordögum þegar samtökin höfðu nýlega verið vakin af værum svefni. Þá var höfundunum mikið niðri fyrir, þeim þótti barnabókin í vanda stödd, og veltu upp ýmsum hugmyndum um það sem betur mætti fara.

Nú, sjö mánuðum síðar, tókum við upp þráðinn og fengum þau Gunnar Helgason og Margréti Tryggvadóttur, barnabókahöfunda, ásamt Láru Aðalsteinsdóttur, verkefnastjóra hjá Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, til að koma og segja frá því sem gerst hefur á þessum tíma.

Allir vildu vera með

„Það hefur nú ýmislegt gerst,“ segir Margrét. „Þegar við endurstofnuðum SÍUNG kom í ljós að það var mikill hugur í fólki og það vildu eiginlega allir vinna með okkur, sem kom okkur skemmtilega á óvart.“

Samtökin hafa bæði verið í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og í viðræðum við Menntamálastofnun. Þessi þrjú öfl ætla að leiða saman krafta sína og efna til málþings í Ráðhúsi Reykjavíkur, þann 4. október næskomandi, þar sem fjallað verður um barnabókina, mikilvægi og áhrifamátt hennar.

Aðkallandi vandi

„Menntamálastofnun var svolítið eins og kastalinn á hæðinni,“ segir Gunnar, „óvinnanlegt vígi sem við sátum um þar til þau létu vindubrúna síga og buðu okkur í heimsókn!“ Hann segir að til þess að verða einhverju ágengt sé mikilvægt að hætta að reyna að finna sökudólga og vinna frekar að lausnum í sameiningu.

„Þetta er aðkallandi vandi,“ segir Gunnar og telur upp minnkandi lestur, minnkandi bóksölu og þann vanda sem íslensk tunga stendur frammi fyrir. Þetta helst líkast til allt saman í hendur á einn eða annan hátt og þau eru sammála um að barnabókin geti verið ein lausnin.

Mynd með færslu
 Mynd: flickr

Stuðningur hins opinbera felst meðal annars í innkaupum

Öll eru þau sammála um að barnabókabransann skorti fjármagn og að skiljanlegt sé að höfundar séu tvístígandi um það hvort þeir eigi að láta vaða, þegar kemur að því að skrifa barnabækur. Til dæmis sé skortur á stuðningi frá hinu opinbera, en hann geti falist í mörgu. 

„Hið opinbera verður að axla ábyrgð á innkaupum, til þess að greinin í heild geti lifað af þessu,“ segir Margrét. „Það gengur ekki að hver skóli kaupi eina bók og fari svo árið eftir á bókamarkað og geri sín innkaup þar. Þannig veitir hið opinbera ekki stuðning.“

Börn verða að þrá bækur áður en þau byrja að lesa

„Það er nauðsynlegt að gefa börnum næði,“ segir Margrét, en í okkar samtíma er sífellt áreiti og truflun nánast hið eðlilega ástand. Einnig segir hún mikilvægt að börn hafi lesandi fyrirmyndir, að foreldrar sökkvi sér niður í lestur líka. „Mín kenning er sú að börn verði helst að elska bækur áður en þau byrja að lesa. Þau þurfa að þrá það.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af RÚV - RÚ

 

Börn hafa ekki íslensk orð yfir áhugamálin sín

„Við erum bara svo fátæk af bókum fyrir börn. Ef við horfum yfir síðustu þrjátíu, fjörutíu ár, þá eru stór göt í þekkingu í bókarformi,“ segir Margrét. „Þau ná sér í þessa þekkingu á Internetinu, það er náttúrlega frábært að þau geti það, en á móti kemur að þau eiga kannski ekki íslensk orð yfir áhugamálið sitt.“

„Þetta snýst um framtíð íslenskunnar,“ segir Gunnar. „Eigum við bara að gefast upp og láta hana útvatnast hægt og rólega, eða eigum við að sporna við fótum? Þá þurfa allir að líta í eigin barm. Við þurfum að vera góðar fyrirmyndir þegar kemur að lestri, því lestur er undirstaðan.“

Yndislestur eykur námsárangur

En geta skólarnir brugðist við minnkandi lestri með því að gefa börnum næði til lesturs á skólatíma? „Já,“ segir Lára. „Æ fleiri skólar eru að taka upp yndislestur í stundartöfluna.“ Hún bætir við að árangurinn sé afar góður og vel merkjanlegur í fleiri námsgreinum en lestri. „Friðurinn í bekknum verður miklu betri og börnin ná betri einbeitingu.“

Þetta er meðal þess sem rætt verður á málþinginu Barnabókin er svarið sem fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 4. október milli 14 og 17, en nánar má lesa um það á vefsíðu Bókmenntaborgarinnar.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Barnabókahöfundar á Íslandi í sjálfboðavinnu

Bókmenntir

Stjórnvöld eru skuldbundin barnabókum