Leonard leiðir Toronto í kjörstöðu

Toronto Raptors' Kawhi Leonard shoots past Milwaukee Bucks' Brook Lopez during the second half of Game 5 of the NBA Eastern Conference basketball playoff finals Thursday, May 23, 2019, in Milwaukee. The Raptors won 105-99 to take a 3-2 lead in the series. (AP Photo/Morry Gash)
 Mynd: AP

Leonard leiðir Toronto í kjörstöðu

24.05.2019 - 04:37
Kawhi Leonard dró vagn gestanna frá Toronto þegar liðið komst í kjörstöðu í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Milwaukee Bucks í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Staðan var jöfn í einvígi liðanna, 2-2, fyrir leikinn í nótt, en Toronto er nú aðeins einum sigri frá því að komast í úrslitaeinvígið gegn Golden State Warriors.

Leonard skoraði 35 stig í 105-99 sigri gestanna frá Kanada í nótt. Framan af leit út fyrir að heimamenn ætluðu að landa sigri, líkt og hefur gerst í öllum leikjum einvígisins til þessa. Eftir því sem líða tók á annan leikhluta náði Toronto hins vegar að klóra í bakkann, og komst yfir um stund. Milwaukee sneri leiknum aftur sér í hag í þriðja leikhluta, en undir lokin tóku leikmenn Toronto völdin og héldu forystunni til leiksloka.

Leonard gaf 9 stoðsendingar og tók 7 fráköst auk stiganna 35 sem hann skoraði. Fed VanVleet skoraði 21 stig, Kyle Lowry skoraði 17 og Pascal Siakam skoraði 14 stig og tók 13 fráköst. Grikkinn Giannis Antetokounmpo fór fyrir heimamönnum með 24 stig, Eric Bledsoe skoraði 20 stig og Malcolm Brogdon skoraði 18 stig og tók 11 fráköst. 

Liðin eigast við í sjötta sinn aðfaranótt sunnudags á heimavelli Toronto Raptors.