Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Lentu í roki og rigningu á aðfangadag

24.12.2016 - 11:08
Mynd með færslu
 Mynd: Úr einkasafni - Facebook
Sextíu ár eru í dag liðin síðan 52 ungverskir flóttamenn komu hingað til lands eftir að Sovétmenn brutu á bak aftur uppreisnina í Ungverjalandi. Rok og rigning tóku á móti flóttamönnunum. Hingað kom fólkið á vegum Rauða krossins og íslenskra stjórnvalda. Upphaflega var rætt um að taka við ungverskum börnum en úr varð að hingað komu karlar, konur og börn. Yngsti flóttamaðurinn var þriggja ára og sá elsti 54 ára.

„Snarvitlaust veður eins og alltaf á jólunum“

Mikael Þórðarson er einn þeirra ungversku flóttamanna sem hingað komu og hafa búið hér í sextíu ár. „1956 kom doktor Gunnlaugur Þórðarson frá Rauða krossinum og setti spilin á borðin. Við drógum 52 og þá fórum við hingað. Þessir 52,“ segir Mikael. „Hann var ekkert að velja úr heldur tók bara þá sem vildu koma.“

Fólkið hafi gengið gegnum mikla erfiðleika áður en það valdist til Íslandsfarar. Ferðin hingað gekk þó brösuglega.  „Það var bara snarvitlaust veður eins og alltaf á jólunum, rigning og tólf vindstig. Þessi vél sem við komum í frá Flugfélagi Íslands, það kviknaði í tveimur hreyflum á leiðinni frá Berlín. Svoleiðis var það. Það var ekki gott ferðalag.“

Í vinnu á áttunda degi

Ungversku flóttamennirnir voru í sóttkví í Hlégarði í Mosfellssveit yfir jól og áramót. Fljótlega var þeim fundin vinna og húsaskjól.  „Annan janúar var búið að útvega okkur vinnu og verkstjórinn minn eða forstjórinn búinn að útvega mér herbergi. Af Rauða krossins hálfu var ekki meira af mér að segja. Ég veit ekki hvernig það var með aðra en svona var þetta hjá mér.“

„Mér gekk ágætlega. Það var málið sem var erfiðast en eftir tvö ár var það komið nokkuð vel. Ég fór á eitt námskeið á kvöldin og þá var það búið. Mér fannst ég læra meira á vinnustaðnum og af fólkinu heldur en í skólanum.“  Mikael segist þó hafa þurft að gæta sín á því hvaða orð vinnufélagarnir kenndu og hvað þeir sögðu þau þýða. Stundum hafi komið skrýtinn svipur á fólk þegar Mikael sagði eitthvað sem hann taldi saklaust en reyndist dónaskapur.

Búinn að fjölga Íslendingum

Mikael á þrjú börn, ellefu barnabörn og sex barnabarnabörn. „Ég er búinn að bæta aðeins við," segir Mikael. „Búinn að fjölga Íslendingum." Önnur dóttir hans keypti sveitabæ nýlega og flutti þangað fyrir mánuði.

Mikael segir að það hafi aldrei hvarflað að sér að flytja aftur til Ungverjalands eftir að hann var kominn með konu. Síðustu árin hafi hann þó farið þangað á hverju ári og dvalið í mánuð til sex vikur.

Mynd með færslu
 Mynd: Fortepan/Nagy Gyula - Creative Commons

Á flótta undan Sovétmönnum

Fólkið sem kom hingað til lands sem flóttamenn var hluti af hundruðum þúsunda Ungverja sem lögðu á flótta eftir að Sovétmenn brutu niður uppreisnina í Ungverjalandi. Landið lenti á áhrifasvæði Sovétmanna eftir seinni heimsstyrjöld og þar var kommúnískri stjórn komið til valda.

Þegar komið var fram á árið 1956 magnaðist óánægja með stjórnarhættina og fólk tók að mótmæla á götum úti. Ungverska stjórnin hugðist í fyrstu berja mótmælin niður en eftir harðnandi átök komst ný stjórn til valda sem hugðist innleiða frjálsara kerfi í Ungverjalandi og vildi að sovéskar hersveitir hyrfu á brott frá landinu. Skömmu seinna ákvað nýja stjórnin að Ungverjaland myndi segja sig úr Varsjárbandalaginu, bandalagi Austur-Evrópuríkja undir stjórn Sovétmanna. Sovétmenn létu þá til skarar skríða og brutu uppreisnina niður. 

Fjöldi ríkja samþykkti að taka á móti flóttamönnum. Flest þeirra lýstu sig þó reiðubúin til að taka við ákveðnum tegundum flóttamanna. Ýmist börnum, konum eða fólki sem hentaði til ákveðinna starfa.

Vöktu mikla athygli

Ungversku flóttamennirnir voru þeir fyrstu sem hingað komu fyrir tilstuðlan stjórnvalda og Rauða krossins. Koma þeirra vakti talsverða athygli. Fyrstu blöðin komu út 28. desember. Morgunblaðið benti á að fólkið vantaði vinnu og húsaskjól, í frétt blaðsins birtust upplýsingar um hvaða starfsmenntun og reynslu fólk hefði. Vísir greindi frá líðan fólksins og sagði að því hefði þótt íslenski maturinn bragðst vel. En greindi líka frá útvarpsviðtali við ungan íslenska kommúnista sem sagði fólkið aðeins hafa yfirgefið Ungverjaland af ævintýraþrá.

Þjóðviljinn efaðist um að manngæska réði því að tekið væri á móti flóttamönnum og benti á að áhersla hefði verið lögð á hvernig fólk hentaði til vinnu. Alþýðublaðið fjallaði um jólahátíð fólksins og tiltók að tveir prestar hefðu ávarpað það. Sérstaklega var tekið fram að Rotaryklúbburinn hefði útvegað fólki föt og Lyonsklúbburinn Baldur hefði séð öllum fyrir jólapakka. Þá hefðu gosdrykkjagerðir fært fólki öl og gosdrykki en Tóbakseinkasalan tóbak.

Mynd: Tímarit.is / RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV