Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lenti heilu og höldnu eftir neyðarkall

28.03.2016 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sendi út neyðarkall þegar reykur kom upp í farþegarými vélarinnar á flugi milli lands og Vestmannaeyja síðdegis. Þyrlunni var lent í Þykkvabæ. Enginn slasaðist.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslu og lögreglu var þyrlan á leið með sjúkling frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur upp úr klukkan fjögur. Þegar þyrlan var um tíu sjómílur frá landi fann áhöfnin högg og reykur kom upp í farþegarýminu.

Samkvæmt vinnureglum var strax sent út neyðarkall. Björgunarskip frá Vestmannaeyjum var kallað út, svo og Flugbjörgunarsveitin á Hellu og sjúkrabílar. Þyrlan lenti svo heilu og höldnu í Þykkvabæ. Sex voru um borð í þyrlunni, fimm í áhöfn og sjúklingurinn. Björgunarsveitir voru afturkallaðar en ákveðið var að flytja sjúklinginn með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Talið er að bilun hafi komið upp í þyrlunni en ekki er vitað hvers eðlis hún er.

Auðunn Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við fréttastofu að ekki sé gott að segja til um hvort mikil hætta hafi verið á ferðum.

„Við vitum ekki hver orsökin er, og flugvirkjar okkar eru að skoða vélina og finna út úr þessu, hvað var í gangi. En auðvitað er okkur aðeins brugðið þegar við fáum neyðarkall frá okkar vélum, og setjum allt á hæsta viðbragð.“

Auðunn segir að gert verði við þyrluna á staðnum, ef mögulegt er, annars þurfi að skoða framhaldið með tæknimönnum Landhelgisgæslunnar. Bilunin hafi ekki teljandi áhrif á starfsemi Gæslunnar þar sem tvær aðrar þyrlur séu tiltækar.

Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV