Lenda í því að eignast fimm börn á fimm árum

epa04024142 A yound child enjoys the setting sun  at a breakwater in Manila, Philippines, 16 January 2014. Investigators smashed an international paedophile ring that streamed live images of child abuse from the Philippines, authorities in Britain,
 Mynd: EPA
Hvergi í heiminum er hægt að fullyrða að allar konur hafi vald til að koma í veg fyrir eða seinka barneignum. Raunar á það við um flest pör í heiminum að þau eignast annað hvort fleiri eða færri börn en þau kæra sig um. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna,sem ber yfirskriftina The Power of Choice eða máttur þess að hafa val. 

Mannréttindi að hafa stjórn

Árið 1994, fyrir tæpum aldarfjórðungi, skuldbundu ríkisstjórnir 179 ríkja sig til þess að gera fólki kleift að taka upplýstar ákvarðanir um kynheilsu sína og barneignir, það væri hluti af grundvallar mannréttindum. Þetta er ekki orðið að veruleika þó nokkuð hafi áunnist.

Sumar konur velja að eignast fimm börn á fimm árum, aðrar lenda hreinlega í því, hefðu kannski viljað láta líða lengri tíma á milli nú eða láta staðar numið eftir eitt eða tvö. Það er mat skýrsluhöfunda að aukin stjórn á barneignum auki velferð bæði fólks og ríkja. 

Getan til að ráða eigin barneignum er nátengd heilsu, menntun og atvinnu, þegar fólk hefur ekki val bitnar það oft á þessum þáttum, segir í skýrslunni, stjórnleysið heldur aftur af fólki, kemur í veg fyrir að það nái eins langt og það gæti ella náð í námi og starfi - og þegar fólk getur ekki nýtt krafta sína og hæfni til fulls hefur það neikvæð áhrif á efnahagslíf og samfélagslega þróun víða um heim.

Ákjósanleg fæðingartíðni á heimsvísu

Að hafa val getur breytt heiminum, bætt velferð kvenna og stúlkna og hraðað þróun á heimsvísu. Það gerir þeim kleift að samræma betur vinnu og einkalíf og gefur þeim aukna stjórn yfir eigin líkama og heilsu. Þetta segir Natalia Kanem, forstjóri Mannfjöldastofnunarinnar, í formála skýrslunnar. 

Stundum er það heilbrigðiskerfið sem bregst, skrifar Kanem,  skortur á heilbrigðisþjónustu og getnaðarvörnum. Stundum gera hindranir af efnahagslegum toga það að verkum að það er nær ómögulegt að stofna fjölskyldu. Undirliggjandi í þessu öllu, segir Kanem, er þrálátt ójafnrétti milli kynja sem gerir það að verkum að konur fá ekki að taka grundvallarákvarðanir í lífi sínu, ákvarðanir sem lúta að barneignum. 

Eitt af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030 er helgað réttindum og heilbrigði í tengslum við barneignir og Kanem segir réttindi þessu tengd raunar mikilvæga forsendu þess að ná öllum hinum markmiðunum. Það þurfi að tryggja öllum rétt til vals, leysa upp allar hindranir og þá, eigi ekki einungis eftir að nást einhver ákjósanleg fæðingartíðni á heimsvísu heldur myndu lífsgæða fjölda fólks batna, konur og stúlkur njóta aukins jafnréttis og frelsis. 

Lýðveldi Kongó sker sig úr

Fjölskyldur heimsins fara minnkandi og það endurspeglar þá staðreynd að fleira fólk hefur aðgang að nútíma getnaðarvörnum. Réttur fólks til að velja er sterkari en áður. Í dag er fæðingartíðni lægri en hún var fyrir fimmtíu árum í öllum ríkjum heims nema einu, Lýðveldinu Kongó. Víðast hvar hefur hún lækkað hratt, síðastliðinn 150 ár, einkum þó á síðustu sex áratugum. Ástæðurnar eru margvíslegar og ekki alls staðar þær sömu, sem dæmi má nefna inngrip stjórnvalda, aukna menntun og breytingar á vinnumarkaði.  Í meirihluta ríkja með fleiri en milljón íbúa er fæðingartíðnin nú komin undir 2,5 börn á hverja konu og talið er að hún lækki áfram og árið 2040 verði hún komin undir fimm börn á konu í öllum ríkjum heims. 

Umskipti sem hófust í Evrópu

Þessi sögulegu, lýðfræðilegu umskipti hófust í raun um aldamótin átján hundruð, fyrst í Frakklandi, svo í Norður-Evrópu og í hinum enskumælandi heimi. í Ástralíu urðu mikil stakkaskipti á örfáum árum, árið 1851 eignaðist hver kona að meðaltali átta börn, árið 1866 var meðatlalið komið niður í fjögur.  

Fólk var skírlíft eða rauf samfarir í þeim tilgangi að eignast færri börn, í skýrslunni eru nefndar ýmsar ástæður og hugsanlegar ástæður. Vinnumarkaðurinn var að breytast, ungbarnadauði að minnka og konur kannski orðnar leiðar á álaginu sem fylgdi því að eignast hvert barnið á fætur öðru. Menntun öllum börnum til handa hafði líka áhrif, það hefur margoft verið sýnt fram á að menntun kvenna dregur úr barneignum. 

Um miðja 19. öld voru getnaðarvarnir víða fáanlegar á Vesturlöndum, reyndar dýrar, því reiddu margir sig á heimatilbúnar verjur,  svampa og smokka úr þörmum dýra. Svo komu ódýrari varnir, pillan og gúmmísmokkar.

Í Suður-Ameríku fór fæðingartíðni að lækka á sjöunda áratug síðustu aldar. Stjórnvöld skiptu sér lítið af en vilji til að minnka fjölskyldur var til staðar meðal almennings að mati skýrsluhöfunda og fólk var fljótt að tileinka sér getnaðarvarnir þegar þær komu á markað. Ástæður lækkunarinnar voru sambærilegar og í Evrópu og Bandaríkjunum, segir í skýrslunni. 

Annar og lengri aðdragandi í Asíu

Zhongdian, one child poster
 Mynd: Arian Zwegers/Flickr
Frá tímum eins barns stefnunnar í Kína.

Í Asíu var aðdragandinn annar, fæðingartíðnin lækkaði upp úr 1950 fyrir tilstuðlan stjórnvalda. Markmiðið var efnahagslegs eðlis, að hærra hlutfall fólks yrði á vinnualdri og lægra hlutfall á barnsaldri og þannig upp á aðra komið. Umskiptin í Asíu áttu þátt í þeim efnahagslega uppgangi sem varð þar á níunda og tíunda áratugnum en stefnumótun stjórnvalda skipti líka máli, þannig lækkaði fæðingartíðni í Singapúr og Kóreu í takt við aukna fjárfestingu í menntun kvenna og aukna þátttöku þeirra á vinnumarkaði. Í herferðum sínum tíunduðu stjórnvöld kosti þess að eignast fá börn og sögðu það hafa jákvæð heilsufarsleg áhrif á mæður og börn. Í skýrslunni segir að hraði breytinganna bendi til þess að það hafi verið til staðar vilji til að minnka fjölskyldur, þá er bent á að fæðingartíðni lækkaði líka í löndum þar sem stjórnvöld beittu sér ekki, til dæmis í Mjanmar.

Aldrei fyrr jafn skörp skil

Í skýrslunni segir að árið 1800 hafi fæðingartíðni allra ríkja heims verið nánast sú sama en nú sé gríðarlegur munur milli landa og heimsálfa. Aldrei fyrr í sögu heimsins hafa verið jafn skörp skil á milli ríkjahópa þegar kemur að fæðingartíðni. 

Í dag er það fyrst og fremst Afríka sem sker sig úr, fæðingartíðni er mjög há í nær allri álfunni.

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons - Wikimedia commons
Fyrir utan Mosku í Niamey, höfuðborg Níger.

Há fæðingartíðni þýðir að hver kona eignast að meðaltali fleiri en fjögur börn. Hassia er 19 ára móðir, frá Níger. „Líf mitt er flókið, segir hún, líf allra stelpna í Níger er flókið.“ Hún er að læra útsaum, vill geta starfað við saumaskap til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. „Ég vil betri framtíð fyrir börnin mín og allar stúlkur í Níger,“ segir hún.  

Í skýrslunni segir að í löndum þar sem fæðingartíðni er há, séu efnahagslegar, félagslegar, stofnanalegar og landfræðilegar hindranir sem geta komið í veg fyrir að konur geti fengið upplýsingar og hafi bjargir til að stjórna barneignum. Þessar hindranir hamla ungu fólki mest og stöðva milljónir í því að nýta rétt sinn til að stjórna eigin lífi.

Konur sem ljúka framhaldsmenntun eignast færri börn að staðaldri en konur með minni menntun og menntaðar konur eiga auðveldar með að fá góð störf síðar á ævinni, segir í skýrslunni, 

Stjórnvöld þurfa að verja háum fjárhæðum í menntamál

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons - Wikimedia commons
Frá Niamey.

Þar sem fæðingartíðni er há vex mannfjöldinn hraðar, þetta leiðir til þess að hlutfallslega stór hluti íbúa er á barns- eða unglingsaldri. Á svæðum sunnan Sahara er um 60% íbúa undir 25 ára aldri. Fimmtungur kvenna í Afríku, sunnan Sahara, vill koma í veg fyrir þungun en hefur ekki aðgang að nútíma getnaðarvörnum. Að því er fram kemur í skýrslunni. Alls glíma hundruð milljóna kvenna í heiminum við þennan vanda. 

Stjórnvöld í flestum 37 af þeim 43 ríkjum þar sem konur eignast meira en 4 börn að staðaldri hafa hug á að lækka fæðingartíðni. 

Hröð fólksfjölgun setur pressu á stjórnvöld, þau þurfa að mæta þörfum nýrra borgara fyrir menntun og heilbrigðisþjónustu og tryggja að fólksfjölgun grafi ekki undan þeim árangri sem hefur náðst í þróunarmálum. 

Mikill munur innan ríkja

Þegar hver kona eignast að meðaltali þrjú til fjögur börn er miðað við að fæðingartíðni sé í meðallagi. Ríkin sem falla í þennan flokk eru fjölbreytt. Þetta eru ríki í Norður- Afríku, Mið- og Suður-Ameríku, í Miðausturlöndum og Mið- og Suðaustur-Asíu. Í skýrslunni er tekið dæmi um stöðuna í einu þesssara ríkja, Egyptalandi, þar hafa 12,5% kvenna ekki aðgang að nútíma getnaðarvörnum, hlutfallið er enn hærra á landsbyggðinni.

Meðalbarna fjöldi á fjölskyldu segir ekki allt, það er mikill munur milli hópa innan þessara ríkja, vel stætt fólk í borgum hefur aðgang að getnaðarvörnum en fólk á landsbyggðinni og fólk sem tilheyrir minnihlutahópum hefur síður þennan aðgang. Þá er aðgangur unglinga að upplýsingum og kynheilbrigðisþjónustu stundum takmarkaðri en annarra og það leiðir til aukinnar tíðni þungana meðal unglingsstúlkna, þetta er sérstaklega algengt í Suður-Ameríku og ríkjum í Karabíska-hafinu. 

„Peningar færa okkur ekki tíma“

Skýrsluhöfundar ræddu við hjón frá Egyptalandi, þau eiga tvö börn og finnst það nóg, vilja geta tryggt þeim sem besta framtíð, fleiri pör sem rætt var við frá þessum ríkjum voru á sama máli, annað par með tvö börn sagðist vilja verja tíma með börnunum, peningar færðu þeim ekki meiri tíma því vildu þau ekki eignast fleiri börn. 

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Frá Egyptalandi.

 

Færri vinnandi hendur

Fæðingartíðni er lág víðast hvar á Vesturlöndum, þá eignast Ástralir, Rússar, Kínverjar, Japanir og Kóreubúar líka fá börn að meðaltali, svo dæmi séu tekin. Í mörgum þróuðum ríkjum hefur fæðingartíðni verið lág lengi og grundvallarréttindum íbúa til þess að hafa stjórn á barneignum er mætt að mestu leyti. Megináskorun þessara ríkja er sú að íbúar þeirra eru að eldast, lýðfræðipíramídinn er að snúast við og færri vinnandi heldur þurfa að sjá fyrir auknum fjölda aldraðra. Þriðjungur ríkisstjórna í löndum þar sem fæðingartíðni er lág vinna markvisst að því að reyna að hækka hana með stefnumótunaraðgerðum. Þetta er áberandi þar sem fæðingartíðni er undir 1,5 barni á konu, einkum í Austur Evrópu. Stjórnvöld í ríkjum þar sem tíðnin er á milli 1,5 og 2,5 eru flest sátt með stöðuna eins og hún er.

Ófrjósemi

Í skýrslunni segir að konur í þessum ríkjum virðist eiga auðvelt með að stjórna barneignum og að svo virðist sem menntun og starfsframi sé í fyrsta sæti, hjónaband og börn í öðru. Á þessu sé sá hængur að líkur á ófrjósemi aukast, velji konur að fresta barneignum fram á fertugs- eða fimmtugsaldur. Í skýrslunni er fyrir utan þetta lítið minnst á ófrjósemi og líffræðilegar hindranir á þeirri vegferð að eignast börn.

Ekki pláss fyrir fleiri börn

Það geta verið fleiri ástæður sem gera það að verkum að fólk eignast ekki börn eða eignast  fá börn að staðaldri. Peninga- eða húsnæðisskortur, mikill kostnaður við leikskóla- eða daggæslu, óöryggi á atvinnumarkaði og erfiðleikar við að samræma vinnu og einkalíf geta sett strik í reikninginn. Þannig hafa Olga og  Andrey frá Hvíta- Rússlandi, ákveðið að eignast aðeins eitt barn þrátt fyrir að þau langi að eignast fleiri. Þau eiga ekki íbúð, skortir pláss, og launin leyfa ekki fleiri börn að mati Olgu. Hún var heima með Yuliu fyrstu þrjú árin, en í Hvíta-Rússlandi er þriggja ára mæðraorlof, nú er Andrey heima með hana en Olga vinnur úti. Hér er mynd af Olgu, Andrey og Yuliu dóttur þeirra. 

Aðgerðir taki mið af aðstæðum

Það er mikill munur milli ríkja og innan ríkja og vandamálin margs konar. Mannfjöldastofnunin segir að þær aðgerðir sem hvert ríki þarf að ráðast í taki mið af aðstæðum þar en sumt geti þau öll gert, aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þjónustu við fjölskyldur, útrýmt félagslegum, efnahagslegum, stofnanalegum og landfræðilegum hindrunum og horfy til kynjajafnréttis í öllum aðgerðum og allri stefnumótun. Áhersla á kynjajafnrétti þurfi að vera miðlæg í öllum heilbrigðiskerfum. Þá geti ríkin farið yfir núverandi stefnumótun á sviði mannfjöldaþróunar í þeim tilgangi að tryggja að hún valdefli einstaklinga og tryggi þeim rétt til vals. 

Skýrsluhöfundar nefna mikilvægi þess að ríki stuðli að breyttum viðhorfum meðal karla, að því að þeir virði og styðji við rétt kvenna og stúlkna til að hafa val og að þau auðveldi pörum að eignast fleiri börn með því að tryggja betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs, til dæmis með því að bjóða upp á leikskóla eða barnagæslu á viðráðanlegu verði. 

Háleit markmið

Milljónir kvenna skortir aðgang að nútíma getnaðarvörnum og enn er fjöldi barnungra stúlkna neyddur í hjónaband. Markmið Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru háleit- að stuðla að því að engin kona í heiminum verði ófrísk án þess að vilja það, að engin kona eignist barn við óöruggar aðstæður og að allt ungt fólk geti nýtt hæfni sína og krafta til fulls.

Stofnunin starfar í 155 ríkjum og landsvæðum og nær til milljóna kvenna og ungmenna.

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi