Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Lélegt veiðisumar í Mývatni

01.09.2011 - 19:35
Eitt lélegasta veiðisumar í Mývatni er nú að baki. Ástæðan er veiðibann á bleikju sem sett var vegna þess hve ástand silungsstofnsins var bágborið.

Veiðimálastofnun og Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn hafa undanfarin ár fylgst vel með ástandi silungastofnsins í Mývatni. Stofninn hrundi árið 1997 og síðan þá hefur lítil veiði verið í vatninu. Í ár hefur vatnið gefið enn minna af sér, enda var sett veiðibann á bleikju í sumar til þess að styrkja stofninn.  Árleg úttekt á silungastofninum sýnir að bannið hefur komið að gagni því meira er af stærri fiski í vatninu, en þó er ekki farið að bera á neinni nýliðun í stofninum. 

Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, segir að með stækkandi hrygningarstofni sé vonast til þess að hægt verði að byggja upp stærri veiðistofn og fá fleiri árganga inn til að standa undir veiðinni. 

Veiðimálastofnun mun leggja til áframhaldandi veiðibann á bleikju en það er ákvörðun Veiðifélags Mývatns hvort orðið verður við þeim  tilmælum. Veiðibændur hafa sjaldan veitt jafn lítið og í ár, enda bleikjan uppistaðan í afla þeirra en í sumar hefur eingöngu verið leyfilegt að landa urriða.

Þegar best lét veiddu bændur um 30-45 þúsund fiska á sumri en í ár telja þeir einungis nokkur þúsund. Gylfi Yngvarsson, veiðibóndi á Skútustöðum, hefur til að mynda aðeins veitt um 200 urriða og er því eldisfiskur aðaluppistaðan í reykhúsi hans.  „Við veiðibændur erum búnir að gera okkur ljóst að það Mývatn sem var kemur aldrei aftur. Við verðum bara að læra að lifa við nýja tegund af Mývatni og hagræða veiðum okkar eftir því og reyna að byggja upp silungsstofnana og ná hámarksnýtingu á vatninu eins og það er,“ segir Gylfi.

Á árum áður var veiðin í Mývatni um 30 þúsund fiskar en hefur farið yfir 100 þúsund.  Einungis hafa veiðst nokkur þúsund fiskar í sumar.

„Síðasta góða veiðiárið var árið 1986 þá veiddust um 45 þúsund fiskar í Mývatni,“ segir Gylfi.  „Auðvitað eru alltaf sveiflur í fiskstofnum en það ætti að vera hægt að ætlast til þess að Mývatn ætti að geta gefið af sér 4-8 kíló af sér á hvern hektara.“