Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lélegasta afsökunin í gervallri HM sögunni

Mynd: EPA / EPA

Lélegasta afsökunin í gervallri HM sögunni

28.05.2018 - 11:25
Froskar sem halda vöku fyrir leikmönnum og of langir þjóðsöngvar er meðal þess sem gripið hefur verið til í því skyni að útskýra slæma frammistöðu á knattspyrnuvellinum. Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson er sérstakur gestur í Morgunverkunum á Rás 2, en þar svarar hann spurningum lesenda um allt milli himins og jarðar sem tengist heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

Að þessu sinni er spurt hver sé lélegasta afsökunin í sögu mótsins. „Þetta er góð spurning og náttúrulega vegna þess að HM er svið stórra sigra og líka mikilla vonbrigða. Eiginlega meira um það af því að það getur bara einn unnið,“ segir Stefán sposkur, og bætir við: „Þetta er eins og í Highlander-myndunum.“

Vansvefta vegna froska

Hann segir að afsakanirnar fyrir tapi geti oft og tíðum verið skemmtilegar og nefnir sem dæmi þegar Úkraína lék gegn Spáni árið 2006 í Þýskalandi. Hann segir spennustigið í leiknum hafa verið hátt en Úkraínumenn hafi fengið skell og tapað með engu marki gegn fjórum. „Þjálfarinn var með skýringu á þessu, þetta var ekki strategían eða yfirburðir leikmannanna heldur kvartaði hann yfir því að froskar hefðu haldið vöku fyrir leikmönnum sínum á nálægu hóteli og þeir hefðu komið vansvefta til leiks. Þetta er nokkuð góð afsökun,“ segir Stefán.

Bölvun Micks Jaggers

Hann nefnir annað dæmi þegar Brasilíumenn töpuðu í undanúrslitum gegn Þjóðverjum. „Það kom í ljós að Mick Jagger var alveg fádæma óheppinn á þessu móti, hann var í Brasilíu,“ segir hann. „Og hann mætti á hvern leikinn á fætur öðrum, hélt með Spánverjum í þessum leik og Englendingum í þessum og Brasilíumönnum í þessum og allsstaðar þar sem hann kom þá endaði þetta á ósigri hans manna. Þannig að Mick Jagger klúðraði HM-draumnum!“

epa04299338 A Brazilian supporter holds a cardboard cutout depicting Rolling Stones singer Mick Jagger prior to the FIFA World Cup 2014 quarter final match between Brazil and Colombia at the Estadio Castelao in Fortaleza, Brazil, 04 July 2014.
 Mynd: EPA
Brasilískir stuðningsmenn reyna að nýta sér „óheillakrákuna Mick Jagger“

Kærastan kostaði þá sigur

Þá er þriðja dæmið árið 2010 þegar Spánverjar loksins náðu sér á strik og urðu meistarar, en byrjun þeirrar sigurgöngu gekk brösuglega. Í fyrsta leik var þeim kippt niður á jörðina þegar þeir töpuðu eitt – núll fyrir Sviss. „Menn fóru að reyna að finna skýringar hvernig gæti staðið á þessu.“ Hann segir spænsku blöðin hafa dregið þá ályktun að Iker Casillas hafi verið í markinu og kærastan hans, íþróttafréttakona, hafi staðið fyrir aftan markið og það hafi truflað hann. „Þessi stúlka var bara beðin um það að færa sig í burtu og hætta að eyðileggja leikina, sem hún gerði og þeir urðu heimsmeistarar,“ segir Stefán glettinn.

Þjóðsöngurinn langi

Hann nefnir þó atvik frá sjötta áratugnum sem verstu afsökunina í sögu mótsins, þegar Skotar mættu til leiks gegn Sviss. „Skotar mættu í fyrsta sinn 1954, mjög hrokafullir og sigurvissir. Þeir höfðu ekkert fylgst með heiminum þannig að þeir sáu nú ekki ástæðu til að mæta með meira en þrettán leikmenn, það mátti mæta með átján manna hóp,“ segir hann. „Þá mætti öll stjórn skoska knattspyrnusambandsins líka með konurnar sínar, þannig að það voru alveg til peningar.“ Hann segir undirbúningin allan hafa verið í rugli, æfingaleikina fáa og búnaðinn lélegan. „Þeir mættu á þungum skóm eins og höfðu tíðkast þrjátíu árum fyrr, þykkum bómullarskyrtum og svitnuðu eins og grísir í sumarhitanum þarna í Sviss.“ Skotar mættu Úrúgvæ í fyrsta leik, þá ríkjandi heimsmeisturum og töpuðu leiknum með engu marki gegn sjö. Skýringarnar að leik loknum voru á þá leið að það hafi verið svo erfitt fyrir Skotana, í þykkum bómullartreyjum, að standa í sólinni og bíða fyrir leikinn á meðan þjóðsöngvar keppnisliðanna voru spilaðir. „Vegna þess að þjóðsöngur Úrúgvæ væri svo langur. Örlítið styttri þjóðsöngur eða bara þjóðsöngur í skikkanlegri lengd og þá hefðu þeir strax verið ferskari, farið betur inn í leikinn og ekki tapað svona illa,“ segir Stefán og bætir við að lokum: „Þetta held ég að við verðum að segja að sé lélegasta afsökunin í gervallri HM-sögunni.“

Stefán Pálsson var gestur í Morgunverkunum á Rás 2 þann 14. maí 2018.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Þegar Wales fór á HM sem fulltrúi Asíu

Fótbolti

Ekki útilokað að labbakútur verði markakóngur