Leitt ef sveitarstjórnarfólk upplifir þrýsting

22.01.2019 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Leiðin um Teigsskóg er ódýrust, styst og öruggust þeirra valmöguleika sem í boði eru, að sögn Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar. Hún hafnar því að sveitarstjórnarfólki í Reykhólahreppi hafi verið stillt upp við vegg og það svipt skipulagsvaldi, líkt og bókað var á fundi sveitarstjórnarinnar í dag þegar hún samþykkti með þremur atkvæðum gegn tveimur leiðina um Teigsskóg fyrir Vestfjarðaveg.

„Mér þykir mjög leitt ef þau upplifa þetta svona,“ segir Bergþóra innt eftir viðbrögðum við fullyrðingum sveitarstjórnarfólks í Reykhólahreppi. „Það er okkar hlutverk að koma með tillögu að veglínu og hafa hana rökstudda. Við höfum lagt okkur fram um það að veita allar þær upplýsingar og draga þær saman í nothæft horf þannig að þau gætu unnið með þær.“

Sveitarstjórnin standi hins vegar frammi fyrir sömu áskorunum og aðrir sem leggi mat á þetta mál. „Það er að segja að þessi Þ-H leið er styst, öruggust og ódýrust og hún hefur svipaða, eða eins niðurstöðu, í umhverfismati og leiðir sem hafa verið skoðaðar. Jarðgöng eru undanskilin og þær hugmynd hafa ekki komist á blaða vegna kostnaðar.“ Leið R, sem myndi liggja í gegnum Reykhólahrepp og líklegt var talið að sveitarstjórnin myndi velja, hafi ekki farið í umhverfismat og sú ákvörðun hafi verið tekin í samráði við fyrri sveitarstjórn. 

25 milljörðum verður varið til vegagerðar á Vestfjörðum á næstu sjö til átta árum, þar af er áætlað að um 7 milljarðar fari í þennan hluta Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Bergþóra segir að fjárveitingavaldið hafi gefið til kynna að ekki verði hægt að velja dýrari leiðir. Engin einföld lausn sé á málinu. „Alveg sama hvaða leið verður farin, það eru andstæðingar við allar leiðir. Það þarf bara að vinna sig í gegnum það. Ekkert þarna er einfalt. Ef svo væri þá væri löngu búið að leysa þetta mál,“ segir hún. Það sé erfitt að gera öllum til hæfis en síður en svo ásetningur Vegagerðarinnar að stilla fólki upp við vegg. 

Bergþóra á von á því að hægt verði að bjóða verkið út um næstu áramót og að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi