Leitin að snillingi snillinganna

Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd

Leitin að snillingi snillinganna

09.12.2017 - 12:20

Höfundar

Píanó konsert númer 26 í D dúr er síður en svo eina verkið hvar Wolfgang Amadeus Mozart sleppir því að skrifa heilu og hálfu kaflana á nótnablaðið. Kannski sá hann fyrir sér að hann gæti sparað tíma með þessu; eða mögulega var hann bara latur. En Mozart var auðvitað spunameistari mikill. Á sviðinu spilaði hann kannski eitthvað allt annað en hann hafði upphaflega ætlað sér að skrifa.

En hafið hugfast, að spuninn hélst alltaf listilega í hendur við harmóníuna og allt fellur það inn í tónverkið; höfundurinn, stjórnandinn og sjálfur listamaðurinn, er snillingur. Hann gerir þetta eftir sínu höfði, engar glósur, ekkert pár á spássíunni. Bara eyða, bara tómarúm, sem hann einn getur fyllt.

Leitin að snillingnum 

Í áttunda og síðasta þætti Markmannshanskanna hans Alberts Camus veltir Guðmundur Björn Þorbjörnsson fyrir sér hugmyndinni um snillinginn, og hvort ákveðnir íþróttamenn geti talist til snillinga. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Snillingur er ekki það sama og snillingur, og hér er lagður dómur á það hvaða kríteríu hinn eini sanni íþróttasnillingur þarf að hafa, til þess að komast í gegnum nálaraugað og verða útnefndur snillingur snillinganna.

Á hinum ýmsu listum á netinu yfir snillinga, er sjaldan að finna íþróttamenn. Listamenn teljast til snillinga, tónskáld, verkfræðingar, uppfinningamenn og landkönnuðir meira að segja - stærðfræðingar, heimspekingar og vísindamenn - en ekki íþróttamenn. En innan íþróttanna leynast konur og karlar sem geta búið til listaverk, rétt eins og Mozart og van Gogh. Til eru þeir sem ná yfir einhver mörk, út fyrir þennan heim og yfir í annan. En hvort þau séu snillingar eða ekki – já, um það snýst leit okkar í þessum þætti.

Þáttinn í heild sinni er hægt að nálgast hér.

Mynd með færslu
Michael Jordan var þekktur fyrir troðsluhæfileika sína Mynd: mynchomes.com
Michael Jordan er besti körfuboltamaður allra tíma. En er hann snillingur snillinganna?

Sigurvilji Jordans gerir hann ekki að snillingi  

Körfuboltagoðsögnin Michael Jordan hafði allt sem prýða þurfti góðan leikmann. Hann var snöggur, sterkur, góður skotmaður, góður varnarmaður - þótt hann hafi ekki verið neitt sérstaklega hávaxinn af körfuboltamanni að vera, en hann var rétt undir tveimur metrum á hæð. Og Jordan er ekki aðeins besti körfuboltamaður sem uppi hefur verið, heldur líka einhver mesti sigurvegari sem hefur nokkurn tímann stigið fæti inn á körfuboltavöllinn.

Ef þú þyrftir að nefna einn snilling úr heimi íþróttanna, myndi ég ekki álasa þér fyrir að nefna Michael Jordan. Ég er hinsvegar ekki viss. Jordan var óumdeilanlega einhver mesti íþróttamaður og sigurvegari sem íþróttasagan geymir, en það sem gerði Jordan jafn góðan og raun bar vitni - það sem færði hann yfir á næsta stig og gerði hann að mögulegum og hugsanlegum snillingi - var skapið í honum.

Í þættinum eru færð rök fyrirþví að þótt Michael Jordan hafi vissulega verið snillingur í þeim skilningi að hann gat gert hluti sem enginn annar gat gert, og hann búið til ódauðleg listaverk í tímanum - hafði það fyrst og fremst verið metnaðargirnd og sigurvilji sem keyrði fram þessa snilligáfu. Hún hafi honum ekki verið í blóð borin.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Serena Williams, í mikilfengleik sínum og snilld; er ekki snillingur snillinganna.

Serena Williams og heimur brotinna karlmanna  

Serena Williams er eini tennisleikari sögunnar, bæði í karla- og kvennaflokki, sem hefur unnið að minnsta kosti sex titla á þremur af fjórum stóru tennismótunum, og eini leikmaðurinn sem hefur unnið tvö af fjórum stóru mótunum, sjö sinnum hvert, sjö Wimbledon titla og sjö á opna ástralska. Hún hefur unnið 39 stóra titla á ferlinum og árið 2015 var hún valinn íþróttamaður ársins í heiminum af hinu virta íþróttatímariti Sports Illustrated.

En því miður kann það að vera svo, að vegna þess að Serena Williams er kona, hafa afrek hennar ekki verið metin að verðleikum innan íþróttanna. Heimur íþróttanna er ennþá að mörgu leiti heimur karlmanna - og oftar en ekki brotinna karlmanna, eins og við höfum fengið að kynnast í þessum þáttum.

Tenniskappinn fyrrverandi, John McEnroe, sagði nýverið að Serena ætti ekki séns í 700 bestu karlkyns tennisleikara heims, þar sem hún væri kona. Blaðamaðurinn Kevin Fallon velti fyrir sér þýðingu slíkra fullyrðinga:

Árið 2017 getum við gengið að þremur hlutum vísum; dauðanum, sköttum og karlrembu-ösnum sem gera lítið úr afrekum kvenna - sem gerir það að verkum að það er í alvörunni nauðsynlegt, eins fáranlega og það kann að hljóma, að halda uppi vörnum fyrir mikilleik Serenu Williams. Því auðvitað, þá geta engin orð lýst þessum tennissnillingi.

Fallon hefur ýmislegt til síns máls enda talar tölfræðin sínu máli; Williams er besti tennisleikari sögunnar. Hún hefur unnið sér inn mest verðlaunafé tennisleikara, hefur 85% vinningshlutfall og hefur unnið 72 mótssigra.

 Ef ég væri karl, væri þetta ekki einu sinni til umræðu. Ef ég væri karl, hefði ég 100% verið álitin besti tennisleikari allra tíma. Fyrir löngu síðan.

Í þættinum kemur fram að þetta sé einmitt það sem geri það að verkum að snillingurinn Serena Williams, sé ekki snillingurinn sem við leitum að hér.

Serena er krafturinn, áræðnin, þokkinn og viskan holdi klædd inni á vellinum; en þetta eru áunnir hæfileikar, með þrotlausum æfingum alla hennar ævi. Utan vallar er hún jafnframt fyllilega meðvituð um íþróttamanninn Serenu Williams. Um söluvöruna Serenu Williams og um goðsögnina Serenu Williams.

Það er enginn Mozart í Serenu Williams. Þótt hún sé vissulega, á sinn hátt snillingur.

epa05641496 Chess players Magnus Carlsen (L) of Norway, the reigning world chess champion, contemplates his next move against Sergey Karjakin (R), of Russia, during round 8 of the World Chess Championship in New York, New York, USA, 21 November 2016. The
 Mynd: EPA
Magnús Carlsen er gæddur náðargáfu, en hann er ekki snillingur snillinganna.

Undrabarnið frá Tönsberg og náðargáfan sem þarf að næra 

Það var snemma ljóst að skákin lægi nokkuð auðveldlega fyrir Magnúsi Carlsen. Hann byrjaði að tefla við eldri systur sína þegar hann var fimm ára og fljótlega var hann farinn að vinna hana auðveldlega. Hann keppti á sínu fyrsta móti 8 ára gamall og varð stórmeistari 13 að verða 14 ára, árið 2004.

Líkt og með svo marga aðra framúrskarandi íþróttamenn, var Magnús Carlsen nokkurs konar undrabarn. Foreldrar hans tóku snemma eftir því að hann hafði eirð til þess að sitja einn og dunda sér í marga klukkutíma við að púsla flókin púsluspil. Skákin kom mjög auðveldlega til hans. Líkt og tónlistin og nóturnar komu til Mozarts. Þetta er allt í hausnum á honum.

Þetta er ekki fyrir okkur hin að skilja. Magnús Carlsen hlaut einhvers konar náðargáfu, eitthvað yfirskilvitlegt í vöggugjöf. Og kannski er það einmitt það sem skilgreinir snilling. Að hann búi yfir einhverjum hæfileikum sem hann bað aldrei um.

Í þættinum er þó komist að þeirri niðurstöðu að Magnús Carlsen sé ekki sá snillingur sem við erum að leita að. Ástæðan er meðal annars sú að Carlsen er fyllilega meðvitaður um náðargáfu sína; gáfu sem hann þarf þó að næra og rækta bæði með því að lesa og fræðast um skák daginn út og inn; og halda sér í góðu líkamlegu formi.

epa05916017 FC Barcelona's Lionel Messi reacts during the UEFA Champions League quarter final, second leg soccer match between FC Barcelona and Juventus FC at Camp Nou stadium in Barcelona, Spain, 19 April 2017. EPA/QUIQUE GARCIA
 Mynd: EPA - EFE
Lionel Messi er með öllu ófær um að skilgreina hver eða hvað hann er. Það gerir hann að snillingi snillinganna.

Að geta ekki skilgreint sjálfan sig: Messi og David Foster Wallace 

Hvernig verðskulda ég - að fá að tala um þig? Yndi augna minna. Ég ætla ekki að verja tíma í að útlista einhver smátriði um þig. Pep Guardioloa, gamli þjálfarinn þinn - ráðlagði okkur einu sinni að tala ekki um þig, heldur ættum við aðeins horfa á þig.

Umsjónarmaður Markmannshanskanna hans Alberts Camus fór til Barcelóna fyrr í haust, þar sem ég gerði tilraun til að sannreyna hvort hægt sé að verða vitni að fullkomnun. Þessari fullkomnun sem stendur á styttunni hans Jordans, en um leið til að sjá hvort það sé eitthvað sem aðskilji ykkur tvo. Hvort þú sért sá sem ég held að þú sért.

Þegar ég sat þarna á vellinum og horfði á Lionel Messi varð mér hugsað til bandaríska rithöfundarins Davids Foster Wallace, og vangaveltna hans um snilling íþróttanna. Hvað er það við þig, litli maður, sem fær mig til þess að halda að þú sért snillingurinn sem ég leita að?

Það er svo ómögulegt að skilgreina raunverulega og ótvíræða snilligáfu, og sönn kunnátta og hæfileikar eru svo sjaldan sjáanlegir (hvað þá sjónvarpsvænir), að kannski gerum við sjálfkrafa ráð fyrir því að fólk sem er snillingar á sviði íþrótta séu líka snillingar þegar kemur að því að tjá sig í rituðu og mæltu máli, að það sé orðheppið og mælskt, næmt og íhugult, heiðarlegt og djúpt.

Wallace fangar þarna kjarna málsins. Lionel Messi skilgreinir sig ekki. Hann talar í rauninni ekki. Hæfileikar hans eru af öðrum heimi, líkt og hæfileikar Magnúsar Carlsen. Sigurvilji hans er ótvíræður, eins og hjá Michael Jordan. Vinna og eljusemi hans sömuleiðis, eins og Serenu Williams. En er með öllu ófær um að greina sjálfan sig með nokkru móti.

Eins og svo oft á við um meðhöndlun okkar á sannleikanum, er hér grimmileg þversögn í spilinu. Það kann að vera að við áhorfendur, sem ekki erum guðdómlega hæfileikaríkir sem íþróttamenn, séum þeir einu sem virkilega getum séð, fært í orð og blásið lífi í þá gjöf sem okkur er neitað um. Og að þeir sem hljóta þá gjöf sem snilligáfa á sviði íþrótta er og raungera hana í heiminum verði, af nauðsyn, að vera blindir og heimskir gagnvart henni — og ekki vegna þess að blinda og heimska eru gjaldið sem þeir greiða fyrir náðargjöfina, heldur kjarni hennar.

 

Mynd með færslu
 Mynd: DFW - Medium
Þýðing Halldórs Armand á ritgerð David Foster Wallace, How Tracy Austin Broke my Heart, kemur víða fyrir í þættinum.

Kjarni náðargáfunar er blinda og heimska gagnvart henni 

Hin grimmilega þversögn, snillingur snillinganna – er Lionel Andrés Messi frá Rosaríó. Kynntu þér hann, hlustandi góður, ef þú ert unnandi lífsins og fegurðarinnar, og þá muntu sjá og skilja að í honum tók fullkomnunin sér bólfestu. Hann bað ekki um það; og hann skilur hvað það þýðir. Hann skildi ekki hvernig hann hljóp framhjá öllum leikmönnum Getafe þegar hann var nítján ára - hann skildi ekki að hann var þá þegar orðinn milliliður náðarinnar, líkt og Mozart.

Og rétt eins og Eiður Smári, barnabarn Þóris kaupmanns á Húsavík sá fullkomnun raungerast í flæði tímans fyrir 10 árum inni á Camp Nou, mun Jón Daði Böðvarsson, barnabarn Þorsteins frá Hamri, verja augnabliki í tímanum með snillingi snillinganna í Moskvu næsta sumar. Ég bið þess einatt og af öllu hjarta, að þú varðveitir það augnablik, ungi Selfyssingur, alla tíð - þegar þú lékst þér við sjálfa eilífðina holdi klædda; þegar þú lékst þér við sannleikann. En ég býst ekki við að þú skiljir það, ekki frekar en ég myndi gera. Enda er það ekki mannsins að skilja eða ná utan um sannleikann – þótt hann stari í augun á okkur. Það vissi Pontíus Pílatus, og það vissi Pep Guardiola. Ekki tala um hann; horfðu bara á hann.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Hann potar skotunum stundum ofan í“

Menningarefni

Af hverju spila hommar ekki fótbolta?

Menningarefni

Féll á þorrablóti Íslendinga í London

Bókmenntir

Um fagurfræði kappleikjalýsinga