Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leitaraðstæður við Ölfusá mjög erfiðar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Tugir björgunarsveitarmanna víðs vegar að af Suðurlandi og frá höfuðborgarsvæðinu leita nú manns sem vegfarandi sá klifra upp á handrið á Ölfusárbrú og stökkva út í ána. Gengið er með bökkum árinnar og fjórir bátar eru einnig notaðir við leitina, að sögn viðmælanda fréttastofu. Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir leitaraðstæður mjög erfiðar.

„Það er búin að vera leit í gangi síðan milli klukkan þrjú og hálf fjögur,“ segir Sveinn í samtali við fréttastofu. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu beinist leitin nú einkum að svæðinu við Ölfusárósa annars vegar, og bökkunum nærri Selfossflugvelli hins vegar, en fólk er þó við leit nánast alls staðar milli Ölfusárbrúar og árósanna. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Gná, hefur aðstoðað björgunarsveitarmenn en aðstæður eru mjög erfiðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV

„Það er mjög mikið vatn í ánni núna, hún er mjög bólgin og mórauð. Og svo er bara frekar hvasst og gengur á með rigningarhryðjum.“ Sveinn segir að næsti stöðufundur verði tekinn með morgninum en leit verði haldið áfram. Hann segir að leitin beinist að svæðinu frá brúnni og töluvert niður fyrir. „En svo stækkum við náttúrulega leitarsvæðið eftir því sem tíminn líður.“

Fréttamaður RÚV, sem fylgist með leitinni, segir að veðrið á þessum slóðum sé ákaflega vont, grenjandi rigning, hvasst og kalt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir