Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leitað til umboðsmanns barna vegna umskurðar

20.02.2018 - 14:09
Mynd með færslu
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Mynd: RÚV
Umboðsmaður barna hér á landi hefur fengið mál inn á sitt borð sem varðar umskurð drengja. Embættið er mótfallið því að umskurður drengja sé heimill og styður lagafrumvarp um bann við því. 

„Afstaða míns embættis hefur verið alveg frá 2013 þegar var gefin út samnorræn yfirlýsing umboðsmanna barna á Norðurlöndunum að umskurður á drengjum bryti gegn Barnasáttmálanum og það hefur verið okkar afstaða að það ætti ekki að leyfa umskurð drengja,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna. 

Hún segir að fyrir fimm árum hafi einstaklingur leitað til Umboðsmanns barna vegna umskurðar. Sama ár sendu umboðsmenn barna á Norðurlöndunum frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að umskurður brjóti gegn grundvallarréttindum ungra drengja. Undir yfirlýsinguna skrifuðu einnig formaður félags barnalækna á Íslandi og bæði yfirlæknir barnaskurðlækninga og yfirlæknir barnalækninga á Barnaspítala Hringsins. Ríkisstjórnir á öllum Norðurlöndum eru hvattar til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að drengir fái sjálfir að ákveða hvort þeir vilji láta umskera sig þegar þeir hafa aldur og þroska til.

Frumvarpið um bann við umskurði hefur verið harðlega gagnrýnt af samtökum gyðinga á Norðulöndunum og biskup Íslands leggst gegn því. Frumvarpið er sagt brjóta gegn trúfrelsi.

„Það sem að mér snýr eru kannski fyrst og fremst réttindi barna og þegar við lítum á það þá finnst okkur það skipta meira máli að þetta eru ekki hættulausar aðgerðir og það er verið að gera þetta á mjög ungum börnum,“ segir Salvör.