Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Leitað að fornleifum á Þingvöllum

26.06.2012 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Leitað verður að fornleifum í þjóðgarðinum á Þingvöllum í sumar. Í sumar verður unnið við skráningu og leit að fornleifum á jöðrum þingstaðarins forna. Einnig verður unnið á svæðinu milli Hrafnabjarga og Ármannsfells.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum nær yfir 230 ferkílómetra. Umferð ferðamanna hefur aukist mjög og eykur það álag á menningarminjar í garðinum. Á vef þjóðgarðsins kemur fram að það sé forgangsverkefni að skrá fornleifar í þjóðgarðinum.

„Vitneskja um staðsetningu og umfang minja í þjóðgarðinum er mjög mikilvæg til að hægt sé að taka tillit til og vernda þær fornminjar sem eru á svæðinu," segir á vef þjóðgarins. 

Fornleifaskráningin er þriðji áfangi í fornleifaskráningunni á Þingvöllum. Vorið 2010 voru eyðibýlin Skógarkot, Hrauntún og Vatnskot skráð auk þess sem svæðið með norðurströnd Þingvallavatns var skráð. Í fyrrasumar var unnið að skráningu innan þingstaðarins forna.