Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leita lausna fyrir gæludýraeigendur

06.05.2015 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Framkvæmdastjóri Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, segir að reynt verði að finna aðrar íbúðir handa gæludýraeigendum þar sem þeim verði heimilt að hafa dýrin hjá sér. Þó vanti íbúðir handa um 200 öryrkjum í Reykjavík.

 

Leigjendur hjá Brynju fengu sent bréf tólfta mars þar sem þeim var tilkynnt þeir þyrftu að að losa sig við gæludýr fyrir 15. maí ellegar yrði húsaleigusamningi rift. Viðbörgð þeirra gæludýraeigenda sem fréttastofa ræddi við í gær voru þau að þeir gætu ekki hugsað sér að láta dýrin frá sér.

Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju, segir að í ljósi umræðunnar sé verið að skoða hvort einhverjar lausnir finnist: „Meðal annars höfum við verið með raðhús og þar höfum við leyft að hafa gæludýr eða þá að flytja í fjölbýlishús út í bæ þar sem er leyft að hafa gæludýr". 

 

Björn Arnar segir að það sé hins vegar ekki hlaupið að því að finna annað húsnæði handa gæludýraeigendum í Reykjavík: „Við erum með 200 manns á biðlista, þannig að við höfum ekki nægt húsnæði. Það hefur hamlað okkur síðustu ár hér í Reykjavík að Reykjavíkurborg hefur ekki viljað greiða leigjendum okkar sérstakar húsaleigubætur og þar af leiðandi höfum við ekki getað fjölgað íbúðum eins og við höfum viljað". 

 

Íbúðir séu svo dýrar að leigan þyrfti að vera það há að öryrkjar réðu ekki við hana. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi nýverið að Reykjavíkurborg hefði verið óheimilt að synja konu sem er öryrki um sérstakar húsaleigubætur.

Björn Arnar segir að í kjölfarið hafi Brynja sent þeim tæplega 500 öryrkjum sem leigja húsnæði af Brynju í Reykjavík bréf þar sem þeir voru hvattir til að sækja um sérstakar húsaleigubætur. Ekki sé komin niðurstaða í málið. Óvíst er hvort borgin áfrýjar dómnum til hæstaréttar.