Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Leita í rústum útimarkaðar

14.01.2010 - 12:14
Íslenska björgunarsveitin á Haítí er nú að hefja leit í rústum útimarkaðar í miðborg Port au Prince. Óttast er að margir séu þar grafnir undir rústum. Eftirskjálftar eru tíðir.

Björgunarsveitin setti snemma í morgun, um miðnætti að staðartíma, upp búðir innan flugvallagirðingar í höfuðborginni en bandaríski herinn er þar við stjórn. Liðsmenn hvíldu sig og sváfu undir berum himni í fimm tíma í nótt. Auk íslensku sveitarinnar er ein bandarísk og ein kínversk sveit komin til Haítí en von er á fleirum á næstu klukkustundum. Gísli Rafn Ólafsson foringi sveitarinnar segir eldsneytisskort tefja fyrir og að illa gangi að finna stað fyrir samhæfingarmiðstöð þar sem flest hús í borginni séu hrunin.

Hann segir ennfremur að mikil ringulreið sé í borginni og fólk þori ekki að sofa innandyra. Lítið sé um vatn og aðrar nauðsynjar. Sveitin sé þó örugg enda sé hún innan flugvallarsvæðisins sem sé varið með góðum girðingum og af lögreglumönnum. Þegar þeir fari inn í borgina séu þeir í fylgd lögreglu eða friðargæsluliðs.