Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Leita að verslunarstjóra fyrir Árneshrepp

30.09.2015 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: facebook
Enginn hefur fengist til að reka verslunina í Árneshreppi í vetur. Verslunin er útibú frá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Staðan hefur verið auglýst síðan í sumar en enginn verið ráðinn.

Verslun Árneshrepps er í Norðurfirði. Eva Sigurbjörnsdóttir, hreppstjóri í Árneshreppi segir það áhyggjuefni ef enginn fæst í starfið: „Það er mjög alvarlegt. Þá þarf að sækja allt út úr sveitarfélaginu. Nema að við getum á einhverjum tímapunkti ákveðið að taka þetta sjálf að okkur. Með svona innkaupafélag eða eitthvað svoleiðis."

Frá janúar fram í mars eru vegir ekki ruddir frá Drangsnesi yfir í Árneshrepp, því geta íbúar lokast inni á þeim tíma. Innan hreppsins er þó rutt svo að börn komist til og frá skóla. Íbúarnir komast því á milli húsa og í verslunina í Norðurfirði. Verði engin verslun rekin á svæðinu gæti fólk þurft að fara sjóleiðis eða með flugi frá Gjögri til að komast í verslun. Eva bætir þó við: „Ég segi ekki að það sé jafn mikilvægt og skólinn. Skólinn er náttúrlega mikilvægasta stofnunin sem við höfum í þessu sveitarfélagi og svo kemur verslun, hefði ég haldið.“

Nýlega sagði RÚV frá því að versluninni í Grímsey yrði lokað eftir að hafa verið starfrækt í 100 ár. „Við höfum oft verið kölluð næsti bær við Grímsey. Við okkur blasir líka sá vandi að okkur vantar aðila sem getur rekið búðina fyrir okkur.“ 

Jón Eðvald Halldórsson Kaupfélagsstjóri á Hólmavík segir að ráðning sé í vinnslu og er bjartsýnn á að verslunarstjóri finnist.

 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður

Tengdar fréttir