Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Leit heldur áfram í dag

13.09.2012 - 06:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Leitað verður áfram að fé á Norðurlandi í dag. Talsvert af fé fannst í gær í grennd við Þeistareyki.

Svæðið er torfært og því nokkrum  vandkvæðum bundið að koma fénu af staðnum.  Um 200 kindur voru fluttar niður af Reykjaheiði í gær. Búið er að leita á Vaðlaheiði og í Bárðardal. Flest það fé sem fannst var á lífi.  Í dag verður meginþungi leitarinnar á Þeistareykjum, í Fnjóskadal og Flateyjardal að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.  Einnig verður leitað í Skarðsdal í Siglufirði og bændur aðstoðaðir í Kelduhverfi. Björgunarsveitir frá Breiðdalsvík til Siglufjarðar, og af höfuðborgarsvæðinu, verða við störf í dag, eða alls um 250 manns. Búið er að flytja mikið af björgunartækjum, vélsleðum, snjóbílum, jeppum, fjórhjólum og kerrum, á Norðausturland.

Þrátt fyrir að vandinn sé mestur á Norðausturlandi var víðar verið leitað að fenntu fé í gær. Björgunarsveitir voru m.a. að störfum á Norðvesturlandi;  í Heiðarbæ, Kolbeinsdal, Unadal, Víðimýrardal, Ólafsfirði, Gautsdal og Hamraheiði.

Flestir bæir á Norðausturlandi eru komnir með rafmagn að sögn almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, en  notast er við varaafl á Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn og í Kelduhverfi þar sem ekki hefur tekist að lagfæra raflínu sem þjónar þessu svæði. Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð í Reykjahlíðarskóla og mun aðstoða eftir þörfum. Mötuneyti, stuðningur og ráðgjöf er þar í boði.  Ekki er vitað til þess að ferðamenn hafi lent í vanda á Norðausturlandi í gær.