Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Leit á Langjökli: „Betra að sýna fyrirhyggju“

06.01.2017 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Jónsson - Landsbjörg
Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að betra sé að sýna fyrirhyggju en ekki, þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu taka ákvörðun um hvort fara skuli í jöklaferð í vondu veðri. Erfitt sé þó að meta einstaka tilvik.

Tveir erlendir ferðamenn sem týndust á vélsleða við Langjökul í gær fundust í gærkvöldi, heilir á húfi. Um 180 björgunarsveitarmenn höfðu þá leitað að fólkinu í nokkra klukkutíma. Fólkið var í skipulagðri vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins Mountaineers of Iceland, en varð viðskila við hópinn og skilaði sér ekki til baka. Vonskuveður var á svæðinu og hafði stormviðvörun verið gefin út. Í fréttatilkynningu sem Mountaineers of Iceland sendi frá sér í nótt segir að vegna góðrar þekkingar leiðsögumanna og hagstæðrar vindáttar hafi verið ákveðið að halda af stað í ferðina. Fyrirtækið setji velferð ferðamanna ávallt í fyrsta sæti. Ekki hefur náðst í forsvarsmann fyrirtækisins í morgun.

„Það var gefin út viðvörun og það virðist sem spáin hafi gengið eftir. Það skall á veður,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Það er hins vegar erfitt fyrir okkur sem sitjum hér að meta aðstæður þarna uppfrá, hverjar þær voru þegar fólkið lagði af stað. Og hvað ferðin var áætluð í langan tíma og þess háttar. En það er rétt, það var spáð slæmu veðri og spáin gekk eftir,“ segir Þorsteinn.

Mountaineers of Iceland segja að vindátt hafi verið hagstæð, leiðsögumenn hafi verið búnir að kanna aðstæður og þess vegna hafi verið ákveðið að fara. Hafið þið skilning á þessu?

„Við getum bara ekki metið þetta miðað við að þekkja ekki aðstæður þarna uppfrá en mér skilst að þarna hafi verið farið eftir þeim reglum að það voru leiðsögumenn bæði á undan og eftir. Þannig að þeim skilyrðum var uppfyllt eftir því sem við best vitum.“

Var rangt af Mountaineers of Iceland að fara af stað í þessa ferð?

„Það er bara þannig að þeir verða að meta það sjálfir. Það getur enginn gert það fyrir þá. En okkur finnst ávallt betra að sýna fyrirhyggju heldur en ekki,“ segir Þorsteinn.