Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leikur að væntingum í „The Last Jedi“

Mynd: AP / AP

Leikur að væntingum í „The Last Jedi“

19.12.2017 - 09:34

Höfundar

Rian Johnson leikstjóri nýjustu Stjörnustríðsmyndarinnar, The Last Jedi, er í stöðugum leik með væntingar og hefðir myndanna segir Gunnar Theodór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi. „Hann nálgast myndina hins vegar af svo augljósri ástríðu og þekkingu á þeim þáttum sem gera Stjörnustríðsmyndirnar áhugaverðar og grípandi að útkoman er reglulega góð viðbót við seríuna – þótt hún sé ekki gallalaus.“

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Þá er komið að nýjustu jólahefðinni hér á landi sem víðar, því enn ein Stjörnustríðsmyndin er komin í bíó. Sú ber titilinn Síðasti væringinn, eða The Last Jedi, og er önnur í nýjasta þríleiknum, eða númer átta í söguröðinni sem hóf leik sinn sumarið '77. Leikstjóri og handritshöfundur er Rian Johnson, sem hlaut góðar viðtökur fyrir myndirnar Brick og Looper en þurfti að hugsa sig vel um þegar honum var boðið stórvirkið, enda sjálfur forfallinn aðdáandi Stjörnustríðs síðan í barnæsku, einn þeirra sem á í sterku tilfinningasambandi við veröld George Lucasar og ábyrgðartilfinningin því nánast yfirþyrmandi. Johnson tók við af J.J. Abrams, sem leikstýrði síðasta hluta, The Force Awakens, og Johnson segist hafa fengið svo gott sem auðan striga til að halda áfram með söguna. Nýlegar fréttir af öðrum leikstjórum sem voru reknir fyrir að vera einum of sjálfstæðir í nálgun sinni á Stjörnustríðsheiminn benda til þess að Lucasfilm vilji ekki fólk sem tekur of snarpar beygjur frá hefðum fyrri myndanna, enda heldur Johnson sig innan áhrifaramma forveranna og hróflar ekki of mikið við formúlunni. Hann nálgast myndina hins vegar af svo augljósri ástríðu og þekkingu á þeim þáttum sem gera Stjörnustríðsmyndirnar áhugaverðar og grípandi að útkoman er reglulega góð viðbót við seríuna – þótt hún sé ekki gallalaus – og enn fremur virkar myndin á undarlega sjálfsmeðvitaðan hátt sem hugleiðing um stöðu Stjörnustríðs í okkar samtíma.

Áður en við víkjum að því er víst nauðsynlegt að segja örfá orð um söguþráðinn. The Last Jedi tekur við þar sem The Force Awakens lauk sinni frásögn og við fylgjum sömu aðalpersónum í áframhaldandi ævintýrum. Poe Dameron, Lilja prinsessa og krúttvélmennið BB-8 sitja undir árás frá Fyrstu reglunni – fasískum leifum gamla keisaraveldisins – og leggja á örvæntingarfullan flótta í gegnum sólkerfin. Finn er nývaknaður úr dái og þarf að halda í leynilegt ferðalag ásamt nýrri persónu, Rose Tico, til að hjálpa uppreisnarfólkinu að sleppa úr klóm Reglunnar. Rey er búin að hafa uppi á Loga geimgengli í útlegð og vill fá hann til liðs við sig á meðan Kylo Ren þarf að sanna sig fyrir æðsta illmenninu Snoke og svara fyrir klúður síðustu myndar. 

Í kynningarstiklu myndarinnar heyrist Logi geimgengill segja að þetta muni allt fara á annan veg en okkur grunar – loforð sem hann gefur Rey um miðbik myndar en er ekki síður ávarp til áhorfenda. Leikstjórinn Johnson er nefnilega í stöðugum leik með væntingar og hefðir Stjörnustríðsmyndanna, vísar í kunnuglegar senur úr fyrri myndum, en snýr líka upp á þræði og streitist gegn því að svara ákveðnum spurningum. Þetta hefur stuðað suma aðdáendur, veit ég, þótt viðbrögð hafi almennt verið mjög jákvæð, en varla er við öðru að búast, því ómögulegt er að gera öllum Stjörnustríðsaðdáendum til geðs. Það kemur til aðallega vegna ákveðinnar innri togstreitu sem einkennir sérstaklega þennan nýja þríleik og tengist samspili hins gamla og nýja. Gömlu myndirnar eiga sér nokkurs konar helgan sess meðal aðdáenda, sérstaklega fyrstu tvær, en síðan þegar George Lucas sendi frá sér framhaldsmyndirnar í kringum árþúsundamótin þóttu þær afar slakar. Ég ætla ekki að hætta mér út í samanburð á þessum myndum, en skal segja það að mesta hrósið sem ég get veitt forleiks-myndunum, eins og þær kallast, er að Lucas reyndi að minnsta kosti að segja nýjar sögur, í stað þess að endurtaka bara leikinn frá því áður fyrr, sem hefði verið mun auðveldara.Hann sagði misheppnaðar sögur, en hann sagði öðruvísi sögur, og helsta gagnrýnin á þessar nýju myndir hefur einmitt verið hvað þær eru ofsalega háðar þeim gömlu. The Force Awakens var svo gott sem endurgerð á fyrstu Stjörnustríðsmyndinni, dulbúin sem framhald, og ég tók heils hugar undir þá gagnrýni þegar ég fjallaði um hana hér fyrir tveimur árum. Getum við ekki sagt aðrar sögur úr þessum ógnarstóra alheimi heldur en sögur af Skywalker og Sóló-fjölskyldunum eða um sömu endurteknu orrusturnar á milli uppreisnarliðsins og keisaraveldisins með keimlík gereyðingarvopn fyrir miðju? Mér brá því við að heyra eina aðalpersónu The Last Jedi færa þessa gagnrýni í orð og tilkynna að það væri tímabært að drepa fortíðina, losa okkur við Jedi-riddarana og Sith-riddarana og uppreisnarlið og æðstu leiðtoga – tími til að skapa eitthvað nýtt!

This image released by Lucasfilm shows John Boyega as Finn in a scene from, "Star Wars: The Last Jedi" (Lucasfilm via AP)
 Mynd: AP
John Boyega í hlutverki Finn.

Þetta ákall er endurtekið stef í gegnum alla myndina, hugmyndin um að lærlingarnir fari aðrar leiðir en lærimeistararnir, að segja skilið við áhrif gömlu trílógíunnar og rannsaka aðra kima algeimsins. Johnson virðist líka vita að þetta má ekki gerast einn tveir og þrír með hraði, heldur jafnt og þétt, og hann vísar markvisst í eldri myndirnar – sérstaklega The Empire Strikes Back – en gerir það á sínum eigin forsendum til að segja nýja sögu og forðast að falla ofan í hreina endurgerð. Þetta er allt reglulega vel gert og gefur myndinni mikla dýpt fyrir aðdáendurna, sem geta rýnt í ólíka þætti og greint þá fram og aftur, sem er vissulega stór hluti af því að fá nýja Stjörnustríðsmynd í hendurnar. En fyrst og fremst sýnir þetta fram á hvað Johnson er annt um efniviðinn og hvað honum tekst vel til að halda mörgum boltum á lofti í einu.

Það endurspeglast líka í helsta styrkleika myndarinnar, sem eru persónurnar. Jú, jú, geimbardagarnir eru voða flottir líka, en Stjörnustríð hefur alltaf fyrst og fremst verið sápuópera og fjölskyldudrama og það er persónusköpunin sem knýr atburðarásina áfram. Hver einasta persóna er úthugsuð og fær heilsteypta sögu í kringum sig, þótt sumir hljóti meira pláss en aðrir. Staðfestu þeirra er ögrað og hugmyndir dregnar í efa; um hetjuskap, trú, vináttu, fjölskyldubönd, illsku og góðmennsku. Þarna er þó helsti gallinn líka falinn, því myndin er ansi löng – sú lengsta í röðinni hingað til, tveir og hálfur tími - og það eru hlutar sem hefði gjarnan mátt stytta. Sagan af Finn og Rose, þótt hún hafi sín áhrif á persónurnar á grípandi hátt og harmóneri þematískt við ferðalög hinna, virkar til dæmis eins og aukakafli við allt hitt. En það gleymist svo sem þegar við fáum að fylgast með Loga og Lilju og sérstaklega Rey og Kylo Ren, en samband þeirra tveggja þróast á snjallan hátt og Daisy Ridley og Adam Driver eru stórkostleg í hlutverkum sínum. Mark Hamill, gamli jálkurinn, er líka frábær sem fúllyndur og furðufyndinn Logi geimgengill og hugljúfur tregi fylgir því að sjá Carrie Fisher í síðasta skipti á hvíta tjaldinu, en hún lést fyrir um það bil ári og myndin er tileinkuð „prinsessunni okkar“.Ég er búinn að sjá The Last Jedi tvisvar – einu sinni upp á eigin spýtur og svo aftur með elstu dóttur minni, sem sá þar með fyrstu Stjörnustríðsmyndina sína í bíó og mætti með pompi og prakt í Rey-búning með vélmenni í vasanum – og ég kann enn betur að meta myndina eftir seinna skiptið. Hún er mjög fín, en ekki meistarastykki – hún er of löng til þess og ákveðnir þættir stuðuðu mig óneitanlega. Tilviljanir og ótrúverðug stökk í atburðarásinni, persónur úr fyrri myndum sem er troðið inn að ástæðulausu, stirð samtöl á köflum og upphafning á vinsælum persónum sem eru látnar gera gjörsamlega fjarstæðukennda hluti til að bjarga hetjunum úr lífsháska á síðustu stundu.

This image released by Lucasfilm shows Chewbacca, left, and a Porg in a scene from "Star Wars: The Last Jedi." (Lucasfilm via AP)
 Mynd: AP
Ofurkrúttlegu geimlundarnir – eða porgarnir – virðast sérhannaðir af markaðsdeild.

Þetta eru hlutar sem virka eins og hannaðir af markaðsdeildinni, rétt eins og ofurkrúttlegu geimlundarnir, sem leikstjórinn segir vera vísun í Hayao Miyazaki, en virðast sérhannaðir til að selja leikföng, eins og Ewokarnir voru í denn. Ég kann þó að meta dýraréttindasjónarmiðið sem er áberandi, þótt það sé krúttvætt með meiru, og gæti vel skrifað heilan pistil um tegundahyggju í The Last Jedi – rétt eins og fjalla mætti sérstaklega um fjölmenningu í myndinni eða breytt kynhlutverk, en hæstráðendur innan raða uppreisnarfólksins eru mestmegnis konur, og þar ber Laura Dern af öllum í hlutverki Holdo aðmíráls. Ég hefði gjarnan viljað skipta út eins og einum geimbardaga fyrir rólega senu með Dern og Fisher að ræða góðar baráttustundir yfir tebolla, en sem fyrr segir er víst aldrei hægt að þóknast öllum Stjörnustríðsaðdáendum.

Rétt eins og Mátturinn sjálfur nær The Last Jedi að viðhalda jafnvægi á milli allra helstu þátta og þá sérstaklega hins nýja og gamla, og tekst enn fremur að sækja innblástur til áhrifavalda Lúkasar sjálfs, allt aftur til samúræjamynda Kurosawa og spaghettívestra Leone, sem nær hámarki í afar eftirminnilegu lokauppgjöri. Stjörnustríð hefur frá upphafi verið samansull af alls kyns áhrifavöldum og The Last Jedi minnir okkur ítrekað á að það er algjör óþarfi að einblína bara á hinn heilaga þríleik til að segja grípandi sögur. Það verður því spennandi að fylgjast með næsta verkefni leikstjórans, en Johnson hefur fengið leyfi til að gera sinn eigin, sjálfstæða Stjörnustríðsþríleik, og vonandi að hann nýti tækifærið til að hlýða eigin ráðum og fari með okkur á nýjar slóðir um fjarlægar vetrarbrautir.