Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leikur að orðum og myndum

Mynd:  / 

Leikur að orðum og myndum

22.02.2019 - 17:15

Höfundar

Það telst eiginlega ekki til tíðinda að Þórarinn Eldjárn sendi frá sér bók, svo afkastamikill er hann. Um leið er hver bók hans tíðindi út af fyrir sig, við lesendur fáum að kynnast á ný myndrænni orðkynngi og kímni sem fram kemur í óvæntum snúningum sem alltaf halda lesauganu vakandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Vammfirring er engin undantekning frá þessu, bókina prýða ljóð sem í einfaldleika sínum bregða sífellt upp myndum af augnablikum tilverunnar sem sum, við fyrstu sýn, skipta kannski ekki miklu máli, meðan önnur takast á við okkar hinstu rök í minningum um farna ættingja og vini.
 
Bókin skiptist í 7 bálka þar sem hver hefur sitt þema, að undanskildum þeim sem titlaður er „Stakt“, en þó má sjá tengingar þar eins og í öðrum. Sá fyrsti, „Rætur og vængir“, hefst á hugleiðingu skáldsins um ljóðið, raunar dálítið skáldskaparfræðilegri greiningu á eigin starfi; upphaf ljóðsins „Blekbytta full af ljóðum“ líkir skáldskapnum við myndir sem framkallast í myrkrakompu og verða að frímerkjum „sem krefjast frelsis“ eins og skáldið orðar það sjálft. Þótt ljóðið sé engin sonnetta kemur dálítið sonnettuleg vending með orðunum „Hvað varð um orðið sosum? / Ég sakna þess“ og lokaerindið er örlítið tregalag til frjómagns bernskunnar og kannski einhver samþáttun hennar við núsýn skáldsins.

Önnur kvæði í þessum bálki dvelja dálítið við hugðarefni æskunnar, hvort sem það eru minningar um ævintýri, sundlaugarferðir eða útihátíðir, minningar sem fá allt annan blæ en ætla mætti af þessum orðum, vitaskuld. Bálkinum lýkur svo með örstuttri yfirlýsingu fyrir skáldskapinn, vissulega ekki með steyttum hnefa, en undirliggjandi ákveðni þess sem lagði hann fyrir sig af öllum sínum mætti og stolti. Það er ljóðið sem bókin dregur heiti sitt af, Vammfirring:

Ég uni mér við íþrótt
í ólgandi kyrrð
tengi orð við orð
fæði orð af orðum
færi orð í orð
ýmist blíð eða stríð

berskömmótt eða launheit.
Sú er sífelldlega og sannlega vammi firrð.

Spennan sem sprettur af refhvarfalegum upphafslínunum, að una sér við íþrótt í ólgandi kyrrð, öðlast síðan skapandi kraft sem einnig er í senn mótsagnakenndur og rökréttur, að tengja og færa í orð og fæða þau aftur á móti, og skáldið lýkur svo erindinu með orðalagi sem minnir á tryggðarheit hjónabandsins, en grefur strax undan því með orðunum „berskömmótt“ og „launheit“, orð sem maður rekst ekki á dags daglega en skiljast strax. En þrátt fyrir þetta er íþróttin nánast biblísk „sífelldlega og sannlega vammi firrð“. Og aftur sjáum við svolítið sonnettulega vendingu í kvæðinu. Sannarlega komið beint að efninu í fáum, vel völdum orðum, ef svo má að orði komast.
 
Annar bálkurinn, „Dalir og sólir“ fjallar nákvæmlega um það og hefst með skemmtilegum hætti inni í borginni eða þéttbýlinu þar sem líkingin við dalinn er bókin í kjöltunni, trén við götuna, húsin, beggja vegna götunnar og endar á
orðunum „Útsýn / innsýn.“ Andstæður inni og úti koma síðan fram í næsta ljóði sem einmitt ber það heiti og smám saman sýnist lesandanum hann vera að fara í ferðalag og verið sé að kanna veðurspána áður.

Það kemur á daginn í næstu ljóðum um dalina sem lofað var í heiti bálksins og skáldið skoðar hina ýmsu dali í textum sem kannski kæmust ekki í Árbók Ferðafélags Íslands, en gætu samt verið nákvæmari lýsingar en þar er að finna á tilteknum dölum þessa lands og tilfinningunni sem þeir gefa okkur þegar við skoðum þá. Skáldið nýtur sín líka í orðaleikjum og sinni léttretorísku kímni sem alls ekki rembist við að vera fyndni.
 
Bálkurinn „Torrek“ er síðan, eins og nafnið bendir til, ljóð um látna vini og ættingja, stutt og hnitmiðuð, til systurinnar Ólafar í fallegri en um leið skemmtilegri minningu, og annarra, kannski ekki síst Sigurðar Pálssonar, en ljóðinu um hann lýkur með þessum orðum: „Ástmögur sólarinnar / las okkur ávexti jarðar / læsari en aðrir.“
 
Bálkurinn „Stakt“ er sá rýrasti í bókinni, þetta eru örstutt ljóð, samt í sjálfum sér hugleiðingar um lífið og helst þá að vera þrautseigur eins og fram kemur í ljóðinu „Slakt“ og einnig síðasta ljóðinu „Ekkert ef“. Það var þarna sem viss safnritstilfinning læddi sér að manni og það átti eftir að staðfestast dálítið við frekari lestur. Þannig var bálkurinn „Varningur“ kannski ekki mikið burðarmeiri en sá sem á undan kom, en skartaði þó töluvert betri myndum og kímni í þýðingu dauðs „varnings“ yfir í tilveruna og lífið.
 
Það kveður svo við allt annan tón í síðustu tveimur bálkum bókarinnar. Sá fyrri þeirra, „Nýjasta sagan af Húsavíkur-Jóni“ er endurritun á samnefndri þjóðsögu í bundnu máli og er þar enginn afsláttur gefinn, og verður að segjast að þjóðsagan batnar töluvert við þessa ummyndun, og undir lokin bætir skáldið við, án þess að breyta eiginlega neinu, svolítilli vendingu sem vísar til samtímans og er það bráðskemmtilega gert. Það eiga eflaust margir eftir að skemmta sér við að bera saman söguna og kvæðið hér eftir.
 
Síðasti bálkurinn kom mér svo mest á óvart, jafnvel þótt vitað sé að Þórarinn er ólíkindatól og geri það sem honum sýnist í sínum bókum. En þessar örsögur undir heitinu „Íslensk fyndni“ koma samt eins og skrattinn úr sauðarleggnum og fjallar síðasta sagan kannski um það, „Leggur í vörðu“, þar sem skáldið undirstrikar kannski paródíska aðferð sína með því einmitt að hafa sögu um skratta í sauðarleggnum sem kemur eins og skratti úr sauðarleggnum.

Sögurnar eru raunar mjög líkar þeim sem ég man eftir að hafa lesið í bókum með þessum titli, Íslensk fyndni, ég á reyndar enga slíka eins og er, en þó eru þær flestar því marki brenndar að vera fremur ófyndnar, ef ekki alveg lausar við það; og eins og í frummyndunum má skynja hér dálítið klaufalega tilraun í frásögnunum til þess að vera fyndinn, og það verður að viðurkennast að það er svolítið fyndið að skopstæla lélega íslenska fyndni, með því að setja hana fram eins og hún í raun og veru var og kannski er. Vísast þurfti skáld sem hefur jafn næma skynjun á það sem grínagtugt er í þessu lífi, og alvöru þess um leið, til að afhjúpa það að fyndni er kannski ekki alveg forte okkar Íslendinga, að minnsta kosti ekki ef við erum að rembast við hana í nafni þjóðarinnar.  
 
Þórarinn leikur sér hins vegar að því eins og hann gerir í mörgum verkum sínum, og líkast til er það leikurinn að orðum og myndum sem gerir verk hans svo læsileg aftur og aftur „og sannlega vammi firrð“.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ljóðlistin er lífsnauðsyn