Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leikarar stungnir í miðri sýningu

12.11.2019 - 01:43
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Þrír leikarar voru stungnir uppi á sviði í miðri leiksýningu í Riyadh í Sádi Arabíu í kvöld. Samkvæmt ríkisfjölmiðli Sáda var árásarmaðurinn handtekinn skömmu síðar. Maðurinn náði að stinga tvo karla og eina konu.

Ástand þeirra er sagt stöðugt, en ekkert var gefið frekar upp um árásarmanninn og ástæðu árásarinnar í ríkisfjölmiðlinum. Dagblaðið Okaz sagði árásarmanninn vera 33 ára gamlan Jemena. 

Örfá ár eru síðan áratuga löngu banni á leiksýningum og öðrum skemmtunum var aflétt í Sádi Arabíu. Þetta er fyrsta árásin sem gerð er á almenningsskemmtun síðan banninu var aflétt. 
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV