Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leiguverð hækkar meira en íbúðaverð

15.01.2019 - 08:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað hlutfallslega meira en íbúðaverð undanfarið ár. Leigumarkaður reynist vera hvað virkastur í vesturhluta höfuðborgarsvæðisins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Í nóvember var 19% þinglýstra leigusamninga á landinu öllu vegna leigusamninga á svæðinu vestan við Kringlumýrarbraut að Seltjarnarnesi.

Flestir samningar á því svæði voru vegna tveggja herbergja íbúða og var meðalfermetraverð slíkrar íbúðar rúmlega 3.000 krónur.

Fjöldi kaupsamninga eykst um 5,3% milli ára á höfuðborgarsvæðinu og 7,4% í þéttbýliskjörnum næst höfuðborgarsvæðinu, auk Akureyrar. Hins vegar mælist 12,4% samdráttur á öðrum svæðum á landinu milli áranna 2018 og 2019.

Árshækkun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 9,2% í nóvember. Til samanburðar hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 6%. Þetta er níundi mánuðurinn í röð þar sem árshækkun leiguverðs mælist meiri en árshækkun íbúðaverðs.

Auður Aðalsteinsdóttir