Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Leiguverð hækkað um 10 prósent

19.10.2013 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Leiguverð hefur hækkað um nær tíu prósent á síðasta ári. Fjórða hvert heimili var í fyrra haldið í leiguhúsnæði, samanborið við sjöunda hvert árið 2007.

Þjóðskrá Íslands reiknar reglulega út vísitölu leiguverðs. Í síðasta mánuði hafði hún hækkað um nær eitt prósent frá því í ágúst; síðustu þrjá mánuði hefur leiguverð hækkað um næstum fimm prósent og um 9,4 prósent síðasta árið. Verðbólga síðustu tólf mánuði er 3,9 prósent og því hefur leiguverð hækkað um 5,5 prósent að raunvirði frá því síðasta haust.

Sé litið enn lengra til baka, til 1. janúar 2011, hefur leiguverð hækkað um næstum 30 prósent síðan þá. Á sama tíma og leiguverð hækkar, búa sífellt fleiri í leiguhúsnæði. Í Félagsvísum, safni tölulegra upplýsinga sem Hagstofa Íslands tekur saman, kemur fram að eitt af hverjum fjórum heimilum landsmanna var í leiguhúsnæði árið 2012. Samanborið við 15 prósent árið 2007.