Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Leigjendur neituðu að fara

08.12.2014 - 21:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hætti við að loka leiguhúsnæði við Nýbýlaveg 4 í Kópavogi þar sem sumir íbúanna neituðu að fara þar sem þeir væru búnir að greiða leigu fyrir desember. Slökkviliðsstjóri segir að önnur tilraun verði gerð á morgun - slökkviliðið hafi þó ekki áður þurft að bera fólk út.

Við Nýbýlaveg 4 hafa verið útbúnar leiguíbúðir í iðnaðarhúsnæði. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, segir í samtali við fréttastofu  að tekin hafi verið ákvörðun að loka húsnæðinu vegna ófullnægjandi eldvarna. Þá hafi slökkviliðinu einnig borist misvísandi upplýsingar um fjölda fólks sem þarna býr.

Slökkviliðið kom á staðinn í dag ásamt lögreglu í dag og enn á staðnum í kvöld þegar fréttastofu bar að garði. Þá höfðu einhverjir íbúanna fundið sér annan samanstað og Rauði Krossinn komið öðrum til aðstoðar.

Hluti íbúanna neitaði hins vegar að fara þar sem þeir væru búnir að greiða leigu fyrir desembermánuð.  Jón Viðar segir að slökkviliðið hafi ekki lent í því áður að íbúar í slíku húsnæði hafi neitað að fara. Hann segir að gerð verði önnur tilraun á morgun - neiti fólkið að yfirgefa húsnæðið verði slökkviliðið að fá álit lögfræðinga á því hvort það megi bera íbúanna út. 

Jón Viðar bendir á að slökkviliðið hafi gert eigandanum það ljóst að ef ekki yrðu gerðar úrbætur yrði húsnæðinu lokað í byrjun desember. Eigandinn hafi engu að síður tekið við leigugreiðslum fyrir mánuðinn án þess að hafa orðið við tilmælum slökkviliðsins.

Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri hjá slökkviliðinu, sagði við fréttastofu á vettvangi að vonandi sé lausn í sjónmáli þar sem eigandinn hafi lýst sig viljugan til að mæta kröfum slökkviliðsins á morgun.

Hann sagði að eðlilega hefði fólki verið brugðið þegar slökkviliðið kom á vettvang í dag. Bjarni sagði jafnframt að þegar ákveðið hefði verið að loka húsnæðinu hefðu þeir ekki vitað hvernig veðurspáin yrði. Nú benti flest til þess að málið fengi farsælan endi.  

[email protected]/[email protected]