Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leifar um fleiri mannvirki við Stonehenge

10.09.2014 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Stonehenge-steinhringurinn skammt frá Salisbury á Bretlandi, eitt glæsilegasta mannvirki fornaldar, stóð ekki eitt, heldur var eitt af 17 mannvirkjum á sama stað. Breskir fornleifafræðingar hafa nú fundið áður óþekktar fornminjar með því að rannsaka undirstöður og umhverfi steinhringsins.

Stonehenge er úr risastórum steinum, reist um 2500 f.Kr. til 2000 f.Kr og umlykjandi virkisgarðar eru frá því um 3100 f.Kr. Fornleifafræðingar hafa með því að beita jarðsjá og öðrum tækjabúnaði skráð fornminjar niður á þriggja metra dýpi undir steinhringnum og umhverfis hann. Meðal þess sem þannig hefur fundist eru merki um allt að 60 ristastóra steina eða steinsúlur sem mynduðu risastóran hring allt að 1,5 km í þvermál.

Þá fannst 33 m löng timburbygging, um 6000 ára gömul. Talið er að húsið hafi verið notað til helgiathafna við greftranir en það er eitt 17 áður óþekktra mannvirkja sem fundust og eru væntanlega tengd helgihaldi á svæðinu. Mannvirkin eru öll jafn gömul og Stonehenge-steinhringurinn sjálfur.

Stonehenge er kunnasta mannvirki sem enn stendur frá hámenningu í Evrópu, svokölluðum Megalith-tíma, stórsteinatíma á steinöld og bronsöld. Stonehenge og nánasta umhverfi hefur verið á Heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1986.