Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Leiðtogarnir settir í spyrilshlutverkið

Mynd: Skjáskot / RÚV
„Við ætlum aðeins að skipta um gír en vitum ekki alveg hvaða,“ sagði Þóra Arnórsdóttir, annar af stjórnendum Leiðtogaumræðunnar á RÚV í kvöld þegar bryddað var upp á nýjum dagskrárlið – að bjóða hverjum leiðtoga upp á að bera fram eina spurningu til annars leiðtoga.

Þorvaldur spurði Katrínu um orð og efndir

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, reið á vaðið og beindi spurningu sinni til Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG.

Þorvaldur spurði hana út í verk ríkisstjórnar VG og Samfylkingarinnar eftir bankahrun og hvers vegna fólk ætti að treysta flokknum núna eftir að hafa ítrekað sagt eitt en gert annað í tíð þeirrar ríkisstjórnar, meðal annars á sviði umhverfisverndar. „Hvað hefur breyst?“ Spurði Þorvaldur. Katrín sagði það rétt að VG hefði setið í ríkisstjórn þegar allt var á hausnum sem hefði unnið mjög ötult starf. „Og ég held að þessari spurningu sé auðveldast að svara með því að leggja okkar verk í hendur kjósenda.“

Sigurður Ingi spurði Katrínu um skatta

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, beindi sinni spurningu líka að Katrínu og vildi vita hvaðan hún ætlaði að fá peninga fyrir grunninnspýtingu í velferðarkerfið. „Formaður VG hefur talað um að það eigi að taka þessa peninga frá almenningi,“ sagði Sigurður Ingi. Katrín sagði að það ætti ekki að hækka skatta á almenning. Hliðra ætti til í skattkerfinu og ef það ætti einhvers staðar að hækka skatta væri það á þá auðugustu. „Þetta snýst um tvennt – að auka tekjur en líka skýrari forgangsröðun.“

Og Katrín spurði Sigurð Inga á móti – líka um skatta

Eftir þessar tvær spurningar til Katrínar ákváðu þáttastjórnendur að leyfa henni að bera fram sína spurningu. „Þetta er aðeins vandræðalegt því að ég ætlaði að spyrja Sigurð Inga að næstum því nákvæmlega því sama – hvort ekki væri eðlilegt að skattkerfið væri nýtt til tekjujöfnunar.“ Sigurður Ingi játti því – endurskoða þyrfti skattkerfið og létta skattbyrði þeirra sem minnst ættu. „Skattbyrði þeirra er miklu þyngri en á hinum Norðurlöndunum.“ Hægt væri miðað við núverandi stöðu í ríkisfjármálum að fara í verulega uppbyggingu á grunnþjónustu án þess að hækka skatta.

Hanna Katrín spurði Loga um, jú, skatta

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, beindi spurningu sinni til Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, og hún var af sama meiði – hún snerist um skattamál. Frekari innspýtingu þyrfti inn í velferðarkerfið og hvort eina leiðin til þess hjá Samfylkingunni væri að hækka skatta. Logi Már sagði það ekki vera – svigrúm væri til þess að ná meiru út úr aukinni verðmætasköpun. Hann sagði sanngjarnar skattgreiðslur tryggja að hægt væri að lifa öruggu lífi þrátt fyrir að verða fyrir áföllum. „Hlutverk okkar er að skipta gæðunum jafnar.“ Auka ætti vaxtabætur og barnabætur en flokkurinn gæti vel hugsað sér auðlegðarskatt. 

Logi á biðilsbuxunum í spurningu til Þórhildar Sunnu

Logi Már spurði síðan Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata, hvort flokkurinn væri reiðubúinn að mynda ríkisstjórn um gildi jafnaðarmanna sem gangi út á sterkt opinbert heilbrigðiskerfi, menntakerfi og hag barnafjölskyldna, öryrkja og aldraðra. Já, var stutta svarið hjá Þórhildu Sunnu en á það var bent að spurning Loga væri eins og hálfgert bónorð. „Þetta tilheyrir ekki bara sósialístum að vilja þetta. Að skilja þetta eftir í mínus væri lántaka frá framtíðinni og það viljum við ekki,“ sagði Þórhildur.

Þórhildur Sunna spurði Bjarna um leiðréttingaherferð

Þórhildur Sunna notaði spurningu sína til að spyrja Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hvort það væri réttlætanlegt að eyða almannafé til að bæta ímynd Sjálfstæðisflokksins og vísaði þar til frétta af almannatengslafyrirtækinu Burson Marstellar sem hefði verið falið að leiðrétta rangfærslur, meðal annars í grein sem birtist á vef Washington Post, um stjórnarslitin. „Það eina sem hefur verið gert er að verja orðspor landsins og Pírötum hefur verið mjög lítið umhugað um það,“ svaraði Bjarni og sakaði Pírata um að koma óorði á Ísland með færslum á ensku á samfélagsmiðlum. Og var þar að tala um tíst Smára McCarthy, þingmanns Pírata, þar sem hann ræddi stjórnarslitin í samhengi við mál Jimmy Savile.

Bjarni spurði Katrínu einnig um skatta

Bjarni sagði, þegar hann ætlaði að bera fram sína spurningu, að það hefði verið pínu svekkjandi að Sigurður Ingi hefði verið að hugsa á sömu nótum og hann og spurði Katrínu Jakobsdóttur síðan hvernig VG ætlaði að auka tekjur ríkissjóðs um 56 til 73 milljarða á ári eins og þingmenn flokksins hefðu sagt í umræðu um fjármálaáætlun. „Þetta snýst um réttlátara skattkerfi,“ svaraði Katrín. Hlífa ætti tekjulægri og millitekjuhópum og sækja fjármagnið þangað sem það væri að finna. „Og þetta er í andstöðu við stefnu Sjálfstæðisflokksins og hægri aflanna í landinu.“

Inga Sæland spurði Bjarna um píningu eldri borgara

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, rifjaði í spurningu sinni upp fund sem Grái herinn hélt í Háskólabíói og spurði hann hvers vegna sett hefði verið frítekjumark á eldri borgara og hvers vegna það væri ekki tekið út með einu pennastriki þar sem þetta væri jú mannanna verk. „Þetta er hin mesta skattpíning.“ Bjarni sagði að þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefði tekið við hefðu lífeyrisgreiðslur verið við innan við 200 þúsund og þær yrðu 300 þúsund um næstu áramót. Næsta skref yrði að létta á frítekjumarkinu og um það væru hann og hún sammála. „En það þarf líka að teygja sig til þeirra sem geta ekki unnið. Það þarf að hækka bæturnar líka.“

Guðmundur spurði Ingu um flóttamenn

Guðmundur Þorleifsson frá Íslensku þjóðfylkingunni spurði Ingu Sæland út í stefnu flokksins varðandi flóttamenn. „Við höfum fagnað komu kvótaflóttamanna,“ svaraði Inga og sagði stefnu flokksins ákaflega skýra. „Við viljum að tekið sé eins vel utan um þau og hugsast getur. Okkur er mesti sómi sýndur að bjóða þau velkomin enda á flest af þessu fólki þann draum heitastan að snúa aftur heim.“

Sigmundur Davíð spurði Þorvald um ESB

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, notaði sína spurningu til að spyrja Þorvald Þorvaldsson, formann Alþýðuflokksins, út í afstöðu flokksins varðandi Evrópusambandið og hver munurinn væri á stefnu hans flokks og svo stefnu Vinstri grænna. Þorvaldur sagðist andsnúinn inngöngu en, eins og þetta horfði við honum, þá væru Vinstri græn ýmist inni eða úti. Katrín Jakobsdóttir fékk svo að bregðast við þessum ummælum og sagði það liggja alveg fyrir að flokkurinn vildi ekki ganga í Evrópusambandið en hefði opnað á þjóðaratkvæðagreiðslu um málið ef óskir kæmu fram um slíkt.

Pálmey spurði Bjarna og Sigmund um verðtrygginguna

Pálmey Gísladóttir frá Dögun kvaðst vilja fá Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð fram á gólfið og stíga smá vals. Spurningin væri til þeirra beggja og snerist um það hvað þeir ætluðu að gera varðandi verðtrygginguna og hvort þeir ætluðu að afnema hana. „Ég held að það væri mjög mikið unnið með að draga úr vægi verðtryggingarinnar,“ sagði Bjarni en benti jafnframt á að það væri enginn að tala um afnám verðtryggingarinnar núna þar sem verðbólgan hefði haldist mjög lág.

Svar Sigmundar við þessari spurningu var einfalt. „Fylgist með á föstudag.“ Þá yrði kosningastefna Miðflokksins kynnt. Sigurður Ingi bættist í hópinn og sagði að niðurstaða nefndar um verðtrygginguna væri að fjörutíu ára verðtryggð lán væri eitruð blanda sem ætti ekki að eiga heima í íslensku samfélagi. „Verðbólgan getur komið aftur og þess vegna verður að banna verðtryggingu á ný neytendalán.“

Óttarr spurði Sigmund um heiðarleika og leiðtogahæfni

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, fékk síðustu spurninguna og hún fór til Sigmundar Davíðs. „Hvernig hyggstu byggja upp traust á heiðarlegri pólitík ef þér tekst að verða þessi sterki leiðtogi sem þú hefur talað um?“ spurði Óttarr og sagði að í tíð ríkisstjórnar hans hefði aðildarumsókn um ESB verið dregin til baka „í trássi við ákvörðun Alþingis“, ekkert hefði gerst í stjórnarskrármálum og uppbygging nýs Landspítala hefði verið stöðvuð. „Þessi atriði sem þú nefnir gætu hjálpað til við það,“ svaraði Sigmundur.

Ákvörðunin um að draga aðildarumsóknina til baka hefði sennilega verið ein stærsta og besta ákvörðun sinnar ríkisstjórnar. Þetta hefði verið ákvörðun sem hefði þurft að taka og stjórnvöld þurft að axla ábyrgð á þeirri ákvörðun. Sigmundur sagði síðan að meira fjármagni hefði þá verið bætt í Landspítalann en hjá nokkurri annarri ríkisstjórn. „Sem betur fer eru menn ekki komnir lengra við Hringbraut en að hægt verður að gera við gömlu húsin þar en byrja síðan á nýjum stað á nýjum spítala sem virkar.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV