Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leiðtogar munnhöggvast í kjölfar fundar G7

10.06.2018 - 18:41
Erlent · G7 · Stjórnmál
A handout photo made available by the German Government (Bundesregierung) on 09 June 2018 shows French President Emmanuel Macron (3-L, partially hidden), German Chancellor Angela Merkel (C-L) and Japan's Prime Minister Shinzo Abe (C-R) speaking to US
 Mynd: EPA-EFE - BUNDESREGIERUNG
Donald Trump Bandaríkjaforseti og leiðtogar hinna G7-ríkjanna hafa skipst á skotum í kjölfar fundar þeirra sem lauk í gær. Svo virðist sem samstarf ríkjanna sem alla jafna hefur verið með besta móti sé í uppnámi. Eftir átakafund virtist vera sátt um sameiginlega yfirlýsingu ríkjanna sjö en á síðustu stundu dró Trump samþykki sitt til baka sem hleypti öllu í bál og brand.

Trump hefur lýst Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sem óheiðarlegum og veikburða á Twitter. Það gerði forsetinn eftir að forsætisráðherrann lýsti því yfir að Kanada myndi svara fyrir bandaríska verndartolla á stál og ál með sínum eigin verndartollum.

Trudeau sagði í kjölfar fundarins að Kanadabúar væru „kurteist og sanngjarnt fólk en við látum ekki ráðskast með okkur“. Hann hefði tekið ákvörðun um að leggja á verndartolla með tregðu, slíkt væri ekki eitthvað sem hann vildi gera. Ekkert annað væri þó í stöðunni.

Síðan hafa ráðgjafar Trump farið mikinn í fjölmiðlum vestanhafs. Larry Kudlow helsti efnahagsráðgjafi forsetans sagði Trudeau hafa stungið Bandaríkjamenn í bakið með framferði sínu og myndi ekki komast upp með að hafa ráðist gegn forsetanum, Trump myndi svara fyrir sig.

Navarro var enn harðorðari og lýsti því yfir að „sérstakur staður væri í helvíti“ fyrir leiðtoga sem stæðu ekki við orð sín í samningaviðræðum. Trump hefði samþykkt að taka þátt í yfirlýsingu leiðtoga G7, sem Navarro lýsti sem „sósíalskri“, sem persónulegum greiða við Trudeau og fengið að launum verndartolla á bandarískar vörur. Stjórnvöld í Kanada myndu sjá eftir því að hafa gengið fram með þessum hætti og ákvörðunin um að leggja á verndartolla væri „ekkert minna en árás á stjórnkerfi okkar“.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í kjölfar fundarins að alþjóðlegt samstarf ætti ekki að stjórnast af reiðiköstum og einstaka ummælum, nauðsynlegt væri að ræða málin af yfirvegun en bætti við umræðurnar hefðu á stundum verið nokkuð æsilegar.

Heiko Mass utanríkisráðherra Þýsklands sagði Trump hafa eyðilagt traust samband Bandaríkjanna og Evrópu með framgöngu sinni. Nú sem aldrei fyrr væri mikilvægt að Evrópa stæði saman og berðist af hörku fyrir hagsmunum sínum.

Theresa May forsætisráðherra Bretlands sagðist hafa gert Trump grein fyrir miklum vonbrigðum sínum með verndartollana, slíkt myndi ekki gagnast neinum til lengri tíma litið.

Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur ekki látið hafa neitt eftir sér um fundinn. Skrifstofa hennar sendi frá sér mynd af fundinum, sem fylgir fréttinni.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV