Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Leiðir Alþýðufylkinguna í Suðvesturkjördæmi

Guðmundur Magnússon, leikari og fyrrverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands.
 Mynd: Guðmundur Magnússon
Guðmundur Magnússon, leikari og fyrrverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands, verður oddviti Alþýðufylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum 29. október. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Alþýðufylkingunni.

Guðmundur var á yngri árum í Kommúnistasamtökunum - marxistunum lenínistunum. Hann var stofnfélagi í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og tók tvisvar sæti á Alþingi sem varaþingmaður hennar á árunum 2005-2008, fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður.

Guðmundur, sem er fæddur 1947, útskrifaðist sem leikari 1968. Hann varð fyrir slysi 1976 og hefur verið lamaður síðan. Hann hefur starfað með Sjálfsbjörg, SEM - samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra, og Öryrkjabandalaginu, og var formaður bandalagsins í fjögur ár.

Guðmundur hefur unnið sem leikari og leikstjóri, kennt á námskeiðum í leiklist og framsögn og við Heyrnar- og talmeinastöðina. Hann hefur verið forstöðumaður Dagvistar Sjálfsbjargarheimilisins.

Í tilkynningunni segir að aðgengismál fatlaðra hafi verið Guðmundi mjög hugleikin, og leiðarljós hans sé samningur Sameinuðu þjóðanna um rétt fólks með fötlun. Guðmundur situr í verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV