Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Leiðbeiningar um gosmengun bornar í hús

Mynd með færslu
 Mynd:
Leiðbeiningar um viðbrögð við mengun frá Holuhrauni verða bornar í hús á Austfjörðum. Brennisteins-díoxíð hefur ekki rofið heilsuverndarmörk í nótt og í morgun. Almannavarnanefnd í umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði fundaði í morgun vegna mengunarhættu frá eldgosinu í Holuhrauni.

Brennisteinsmengun fór yfir 2550 míkrógrömm á rúmmetra á Reyðarfirði í gær þegar mengunarský sveif yfir bæinn. Fólk fann fyrir óþægindum og skólabörnum var haldið inni. Á Reyðarfirði eru þrír mælar á vegum álvers Alcoa Fjarðaáls og einn til viðbótar var lánaður upp í Egilsstaði. Þar mældist engin mengun á sama tíma og hún rauk upp á Reyðarfirði. Mengunarskýið sem fór yfir virðist þó hafa haft viðkomu víðar á Austfjörðum þar sem engir mælar eru. Afgreiðslufrestur á slíkum mælum mun vera einn til tveir mánuðir. 

Almannavarnanefnd í umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði fundaði í morgun vegna mengunarinnar. Inger L. Jónsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að rætt hafi verið um fleiri leiðir til að koma leiðbeiningum til íbúa. Þær eru þegar komnar á netið en einnig stendur til að bera prentaðar leiðbeiningar í hús. Þar sem mengunarmælar eru ekki tiltækir er fólki ráðlagt að vera á varðbergi og meta sjálft hvort mengun eykst. Ef það gerist eiga viðkvæmir og börn að halda sig inni, loka gluggum og slökkva á loftræstingu en þeir sem þurfa að vera úti eiga að forðast áreynslu.

Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands fengust þær upplýsingar að læknar hefðu ekki merkt aukið eða breytt álag vegna mengunar frá gosinu. Í örfáum tilfellum hafi einstaklingar með öndunarfærasjúkdóma fundið aukin einkenni um stund. Erfitt sé aðstaðfesta að það tengist eldsumbrotunum. Fleira gæti valdið, eins og mikill þurrkur og ryk ofan af hálendi.

Samkvæmt spám Veðurstofunnar má í dag búast við háum styrk brennisteins-díoxíðs á svæðinu frá norðanverðum Austfjörðum, á Héraði, í Fljótsdal, á Jökuldal, norður til Vopnafjarðar og jafnvel víðar.