
Leiða sjaldnast til stærri skjálfta
Á átjándahundrað skjálfta hefur mælst síðustu tvo sólarhringa við Grímsey þar af 29 stærri en þrír. Jarðskjálftakort Veðurstofunnar af Tjörnesbrotabeltinu eru ef svo má segja mjög skrautleg um þessar mundir. Skjálftarnir eiga flestir upptök sín um tíu kílómetra austur eða norðaustur af Grímsey. Sumum íbúum þar sem Fréttastofan talaði við í gær þótti alveg nóg um.
„Þarna eru flekar, flekahreyfingar. Þetta er Norður Ameríka að sigla frá Evrópu eða öfugt og þær núast saman þ.a. þarna hljóta að verða skjálftahrinur með ákveðnu millibili. Og þær eru kannski óþægilegar meðan þær standa en í flestum tilfellum eru þær ekki meiri en þetta,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson. Aðeins eru tæp fimm ár síðan síðasta hrina varð eða í apríl 2013.
Sigurjón Jónsson prófessor í Sádi Arabíu, einn helsti sérfræðingur í Tjörnesbrotabeltinu, sagði í Speglinum í vikunni að ekki kæmi á óvart að það færi að styttast í næsta stórskjálfta á Norðurlandi eða þar úti fyrir. Síðasti stóri skjálftinn varð á Kópaskeri 1976. Hann mældist meiri en 6 og olli stórtjóni. Skjálfti af stærðinni 7 varð 1963 og hann er kenndur við Málmey í Skagafirði. Hvað eldgos varðar þá gaus við Mánáreyjar við Tjörnes seint á 19. öld og Kolbeinsey varð til í eldgosi á miðöldum.