Leið um Reykhóla mun dýrari en um Teigsskóg

16.10.2018 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: Multiconsult
Vegagerðin telur kostnað við tillögu norsku verkfræðistofunnar Multiconsult að leiðarvali um Gufudalssveit vera fjórum milljörðum meiri en stofan sjálf áætlaði. Þetta kemur fram í frummatsskýrslu Vegagerðarinnar á tillögu Multiconsult. Fyrsta val Vegagerðarinnar fyrir Vestfjarðaveg 60 er enn leið Þ-H um Teigsskóg.

Fengu mat á leiðarvali frá Multiconsult

Reykhólahreppur fékk norsku verkfræðistofuna Multiconsult til að gera óháð mat á mögulegum valkostum á vegagerð um Gufudalssveit. Multiconsult lagði til svokallaða leið R, sem nýtir Reykhólaveg og þverar Þorskafjörð við mynni hans. Stofan telur kostnað við þessa leið vera litlu meiri en við leið Þ-H um Teigsskóg, sem er val Vegagerðarinnar. 

Vegagerðin gerði samanburð

Sveitarstjórn Reykhólahrepps fór þess á leit við Vegagerðina að hún tæki leið R til skoðunar. Vegagerðin hefur nú gert frumathugun á leiðinni með samanburði við leiðir Þ-H og D2, sem er með jarðgöngum undir Hjallaháls, og er tillaga Skipulagsstofnunar. Hún er talin valda minnstum umhverfisáhrifum.

Allar leiðir fara um verndarsvæði 

Í skýrslu Vegagerðarinnar kemur fram að leið R, sem Vegagerðin kallar A3, raskar verndarsvæðum eins og hinar leiðirnar tvær. Þ-H fer lengstan veg um svæði á náttúruminjaskrá en D2 fer stystan kafla um slíkt svæði. Leið R, eða A3, raskar hins vegar einnig hverfisverndarsvæði á Reykhólavegi og friðlýstu æðarvarpi. Í skýrslunni kemur fram að ekki sé mögulegt að meta áhrif leiðar R á umhverfisþætti nema að undangengnum rannsóknum. Þá sé ekki er ljóst hvort að ráðast þurfi í nýtt umhverfismat fyrir leið A3. 

Meiri kostnaður en áætlað var

Vegagerðin telur að ekki sé hægt að nýta Reykhólaveg fyrir Vestfjarðaveg, eins og tillaga Multiconsult gerir ráð fyrir, nema með endurbótum. Meginástæða þess er umferðaröryggi. Vegagerðin telur kostnaðinn við leið A3 því vera 11,2 milljarða. Multiconsult taldi kostnaðinn á hinn bóginn vera litlu meiri en við Þ-H leiðina, sem Vegagerðin áætlar að sé 7,3 milljarðar. Vegagerðin telur að ef ráðist verður í leið R eða A3 þá verði í fyrsta lagi hægt að ljúka framkvæmdum árið 2024. Ef leið Þ-H verður fyrir valinu sé hins vegar hægt að ljúka framkvæmdum árið 2022.

Val Vegagerðarinnar áfram leið Þ-H

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að afstaða Vegagerðarinnar eftir að hafa unnið þessa skýrslu sé sú að leið Þ-H henti best til að bæta vegasamgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum. Meginrökin fyrir þeirri afstöðu séu að umferðaröryggi á leið A3 sé minna en á leið Þ-H, auk þess sem leið A3 er lengri, kostnaður við hana meiri, umhverfisáhrif töluverð og líkur á að ráðast þurfi í umhverfismat. Þá sé mikil efnisþörf og að opna verði fleiri námur, og líklegt sé að leið A3 tefji framkvæmdir um tvö til þrjú ár. 
 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi