Leggur til að RÚV fari af auglýsingamarkaði

25.01.2018 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: Menntamálaráðuneytið
Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla leggur meðal annars til að Ríkisútvarpið fara af auglýsingamarkaði og að áfengis-og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar. Nefndin skilaði skýrslu sinni í dag þar sem taldar eru fram sjö tillögur til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla.

Tillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:
a) Endurgreiðsla á hluta kostnaðar vegna framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni
b) Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði
c) Virðisaukaskattur á sölu og áskriftum á rafrænu formi og af hljóð- og myndefni eftir pöntun verði 11%
d) Áfengis og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar. Hagsmunaaðilar hér telja sig verða af miklum auglýsingatekjum. 
e) Endurgreiðsla á hluta kostnaðar vegna textunar og talsetningar
f) Undanþáguheimildir frá textun og talsetningu
g) Gagnsæi í kaupum hins opinbera á auglýsingum. Taka þurfi upplýsingar reglulega saman um auglýsingakaup ríkis, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja í þeirra eigu til að tryggja gagnsæi og veita þeim aðhald.

Ilugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, skipaði nefndina í lok desember 2016 til að fjalla um tillögur um breytingar á lögum og/eða aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi. Tillögurnar áttu að miðast við það að tryggja að hér á landi fengist þrifist fjölbreyttur markaður frjálsra fjölmiðla, með tilliti til mikilvægs hlutverks þeirra fyrir lýðræðisþróun og samfélagsumræðu. Ein af ástæðum þess að nefndin var skipuð var að fulltrúar einkareikinna fjölmiðla vöktu athygli stjórnvalda á erfiðleikum í rekstri þeirra, sem mætti rekja til ýmissa utanaðkomandi aðstæðna. Nokkrir einkareknir fjölmiðlar skoruðu á stjórnvöld að gera breytingar á löggjöfinni til að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Stjórnendurnir, sem rituðu undir áskorunina fyrir hönd 365, Útvarps Sögu, Hringbrautar, INN og Símans, töldu að innlendir ljósvakamiðlar hefðu vart möguleika til að halda áfram starfsemi sinni miðað við núverandi lagaumhverfi „af margvíslegum ástæðum”.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að þótt fjölmiðlaumhverfi hér á landi sé fjölbreytt miðað við mannfjölda, þá dyljist engum að rekstur einkarekinna fjölmiðla sé erfiður. Rekstrarerfiðleikar þeirra gefi hinu opinbera tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra.  

Í skýrslunni kemur fram að gróft á litið séu gefin út rúmlega 50 dag- eða vikublöð hér á landi og tæplega 30 tímarit. Hér starfi um 80 vefmiðlar, um 20 sjónvarpsstöðvar14 og tæplega 20 útvarpsstöðvar. Þá séu starfandi ýmsar aðrar efnisveitur. 

Ríkisútvarpið og auglýsingar

Ekki var einhugur í afstöðu nefndarmanna um allar tillögur. Til dæmis er það meirihluti nefndarinnar, en ekki öll nefndin, sem leggur til að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði. Í áliti minnihlutans kemur fram að reynslan frá Frakklandi og Spáni hafi sýnt að markhópar einkarekinna miðla voru ekki þeir sömu og markhópar ríkisfjölmiðla. 

Í tillögum nefndarinnar kemur fram að samkvæmt ársreikningi Ríkisútvarpsins hafi hreinar tekjur af samkeppnisrekstri verið um 1,8 milljarðar króna árið 2016. Stjórnvöld þurfi að meta hvort bæta eigi upp það tekjutap félagsins að hluta eða öllu leyti. Verði það gert liggi beinast við að fjármagna það með hækkun afnotagjalda. 

Nýlegar skýrslur frá Norðurlöndunum sýni að auglýsendur hafi varið umtalsverðu fjármagni í auglýsingar hjá alþjóðlegum risum á borð við Google og Facebook. Jafnframt sé sala alþjóðlegra netmiðla á auglýsingum að aukast. Þannig sé því ekki sjálfgefið að það auglýsingafé sem nú fari til Ríkisútvarpsins skili sér allt til einkarekinna innlendra fjölmiðla, en samkeppnisstaða þeirra muni væntanlega batna. 

Fram kemur í skýrslunni að ekki hafi allir fjölmiðlar verið sammála um að Ríkisútvarpið ætti að fara af auglýsingamarkaði. Sumir hafi stutt að RÚV yrði áfram á markaði og jafnframt hafi verið lagt til að RÚV yrði ekki gert að fara umsvifalaust af auglýsingamarkaði heldur yrði tekið út í þrepum. Þá voru settar fram tillögur um frekari hömlur á möguleika RÚV til að kosta efni eða að kostun yrði alfarið bönnuð. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi