Leggur sérstaka áherslu á þjónustu við aldraða

11.02.2019 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Snædal öldrunarlækni hefur verið falið að móta drög að stefnu stjórnvalda í málefnum fólks með heilabilun af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins er sagt frá því að lögð verði áhersla á þverfaglegt samstarf þjónustuveitenda og samráð við sjúklinga og aðstandendur þeirra, í stefnumótuninni.

Þar segir enn fremur að Svandís hafi ákveðið að leggja sérstaka áherslu á heilbrigðisþjónustu við aldraða á þessu ári. „Í þeirri vinnu verði áhersla lögð á heildarmyndina og það sem snýr að öldruðum sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, hvort heldur er á fyrsta, öðru eða þriðja þjónustustigi þess.“

Haft er eftir Svandísi á vef Stjórnarráðsins að hún hafi ákveðið að fela stefnumótunarverkið einum manni í stað þess að skipa starfshóp. „Jón Snædal öldrunarlæknir verður nokkurs konar ritstjóri stefnumótunarinnar í krafti þekkingar sinnar og reynslu og ég treysti honum til að leita fanga á breiðu sviði hjá fagfólki sem vel þekkir til og einnig að taka inn í þessa vinnu reynslu og þekkingu sjúklinganna sjálfra en ekki síður aðstandenda fólks með heilabilun.“

Stefnt er að því að birta drög að stefnu í málefnum heilabilaðra í Samráðsgáttinni í byrjun júní.