Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Leggjast gegn lögboðnum sameiningum

Árneshreppur , Höfnin, bryggja, bátar, bátur, smábátur, vestfirðir, Strandir.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Forsvarsmenn nokkurra af minnstu sveitarfélögum landsins leggjast alfarið gegn því að knýja fram sameiningar með lögum. Oddviti Skorradalshrepps segir að hagkvæmni í rekstri sveitarfélaga ráðist af fleiri þáttum en íbúafjölda.

Í skýrslu um stöðu og framtíð sveitarfélaga er lagt til að fækka þeim stórlega og festa lágmarksíbúafjölda í lög. Mælt er með því að lágmarksíbúafjöldi verði 250 manns eftir rúm tvö ár og 1.000 manns árið 2026. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er jákvæður gagnvart sameiningum og telur að sveitarfélög með færri en 250 íbúa geti ekki sinnt skyldum sínum. 14 sveitarfélög ná ekki þeim fjölda. 

Í bókun sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps í gær er lagst harðlega gegn tillögunum. Engin rök séu fyrir því að festa lágmarksstærð í lög, enda sé fjárhagsstaða minni sveitarfélaga oft betri en þeirra stærri. 

„Vandamál fyrir allt þjóðfélagið“

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, sem er minnsta sveitarfélag landsins, segist jákvæð gagnvart sameiningum, en óæskilegt sé að knýja þær fram með lögum. Undir þetta tekur Steinþór Heiðarsson, oddviti Tjörneshrepps en þar búa 59 manns. 

„Því hefur verið kastað fram að það kalli á vandamál fyrir okkur ef þetta lágmark yrði sett, en ég held það sé vandamál fyrir allt þjóðfélagið ef það á að fara að setja lög í landinu sem taka kosningaréttinn af íbúum um jafn mikilvægt mál og þetta,“ segir Steinþór. 

Fjórum sinnum hafi sameining verið felld í kosningu meðal íbúa sveitarfélagsins. „Og það sem ég hef heyrt þessi síðustu ár núna er að áhugi íbúa á sameiningu fari frekar minnkandi heldur en hitt,“ segir Steinþór.  

Betra að hvetja en þvinga

Í Skorradalshreppi búa 58 manns. Árni Hjörleifsson oddviti segir vel hægt að reka slíkt sveitarfélag í samstarfi við önnur. Hagkvæmni ráðist ekki af höfðatölu. „Þetta snýst um það hvernig staðan er í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ég hef alfarið verið á móti því að menn séu þvingaðir, það eigi frekar að búa til eitthvað sem hvetur þá til sameiningar og menn sjái sér hagkvæmni í því, en ekki þvinga,“ segir Árni.